Handbolti

Íslensku strákarnir ekki í vandræðum með Svartfellinga

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
U20 ára lið Íslands vann öruggan sigur gegn Svartfellingum í dag.
U20 ára lið Íslands vann öruggan sigur gegn Svartfellingum í dag. HSÍ

Íslenska landsliðið í handbolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri vann öruggan 13 marka sigur gegn Svartfellingum, 41-28, í fyrri leik liðsins í neðri milliriðli EM sem haldið er í Portúgal.

Leikurinn fór rólega af stað og eftir rétt tæpar átta mínútur var staðan 2-2. Eftir það tók sóknarleikur beggja liða við sér og þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var íslenska liðið komið með tveggja marka forskot, 9-7.

Íslensku strákarnir tóku þá öll völd á vellinum og góð vörn og markvarsla skilaði liðinu mest sex marka forskoti í stöðunni 16-10 þegar um fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Svartfellingar náðu hins vegar að stoppa í götin fyrir hálfleik og íslenska liðið leiddi með fimm mörkum þegar gengið var til búningsherbergja, staðan 18-13.

Íslenska liðið hafði svo öll völd á vellinum í síðari hálfleik. Strákarnir náðu fljótt átta marka forskoti og svo tíu marka forskoti í stöðunni 32-22 þegar tæplega stundarfjórðungur var til leiksloka.

Sigur íslenska liðsins var því aldrei í hættu í síðari hálfleik og Ísland vann að lokum afar öruggan 13 marka sigur, 41-28.

Andri Már Rúnarsson var markahæstur í liði Íslands með níu mörk, en þeir Benedikt Gunnar Óskarsson, Simon Mchael Guðjónsson og Gauti Gunnarsson skoruðu fimm mörk hver. Í markinu átti Adam Thorstensen flottan leik og varði 16 skot.

Íslenska liðið er nú með tvö stig í neðri milliriðli tvö þegar liðið á einn leik eftir. Hvorki Ísland né Svartfjallaland tók stig með sér í milliriðilinn, en sigurinn í dag þýðir að Ísland á enn fína möguleika á því að komast upp úr riðlinum. Efstu tvö liðin úr riðlinum leika um 9.-12. sæti á mótinu, en efstu 11 sætin gefa þátttökurétt á HM á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×