Fótbolti

Búnir að skoða Belgíuleikinn betur og sáu fullt af góðum hlutum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásmundur Guðni Haraldsson aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins var léttur á æfingu liðsins í dag.
Ásmundur Guðni Haraldsson aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins var léttur á æfingu liðsins í dag. Vísir/Vilhelm

Ásmundur Guðni Haraldsson ræddi við blaðamenn fyrir æfingu íslenska liðsins á EM í Englandi í dag en þetta var fyrsta æfing liðsins eftir jafnteflið við Belga í gær.

Íslenska liðið átti að flestra mati meira skilið úr þessum leik en eitt stig, íslensku stelpurnar komust yfir, klúðruðu víti og fengu síðan á sig jöfnunarmark úr umdeildri vítaspyrnu.

„Við tókum okkur smá tíma að skoða leikinn og ræddum við leikmenn áðan. Það var margt jákvætt og margt gott. Margt af því sem við ætluðum okkur að gera gerðist og svo var eins og alltaf í fótbolta voru hlutir sem við klikkuðum á,“ sagði Ásmundur Guðni Haraldsson, aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins. En voru stelpurnar enn nærri sigri en þau héldu strax eftir leikinn?

„Já við vorum það. Við upplifðum það þannig að okkur fannst í sjálfu sér engin hætta á því að Belgía myndi skora. Það var upplifunin eftir á. Þegar þær fá vítið þá er allt í jafnvægi og engin hætta. Það er eitthvað klafs en annars ekkert annað að gerast að okkur fannst,“ sagði Ásmundur.

Leikmenn voru skiljanlega svekktar eftir leikinn af því að þrjú stig voru á borðinu.

„Fyrsta upplifunin eftir leik hvort sem það voru þjálfarar, starfsmenn eða leikmenn var eins og þetta væru tvö töpuð stig. Svo gefum við okkur tíma til að anda. Þetta er fyrsti leikur og við fáum stig. Við erum enn þá inn í mótinu og höfum þetta þannig lagað í okkur höndum. Svo þegar við skoðum þetta betur þá eru fullt af góðum hlutum í okkar leik sem við ætlum að taka með okkur inn í leikinn á móti Ítalíu,“ sagði Ásmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×