Erlent

Stjórnvöld í Úkraínu hvetja íbúa að flýja fyrir gagnárás í Kherson og Zaporizhzhia

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Daglegt líf í Skadovsk í Kherson.
Daglegt líf í Skadovsk í Kherson. epa/Sergei Ilnitsky

Stjórnvöld í Úkraínu hafa varað íbúa í Kherson og Zaporizhzhia við yfirvofandi gagnsókn á svæðinu og hvatt þá til að flýja. Svæðin eru nú á valdi Rússa en Úkraínumenn hyggjast freista þess að ná þeim aftur á næstu dögum og vikum.

Iryna Vereshchuk, aðstoðarforsætisráðherra landsins, sagði á föstudag að allir íbúar Kherson og Zaporizhzhia ættu að reyna að forða sér, þar sem herinn myndi gera tilraun til að ná svæðunum aftur. Talaði hún um að „risastór“ orrusta væri framundan.

Yuriy Sobolevskyi, varaformaður héraðsráðs Kherson, sagði í samtali við United News í Úkraínu á laugardag að jafnvel þótt það yrði erfitt að rýma svæðið yrði það að gerast. Þeir sem gætu ekki flúið ættu að undirbúa sig undir harða bardaga.

„Þeir sem geta ekki með nokkru móti farið ættu að undirbúa sig undir það að þurfa aftur að leita skjóls, að hafa birgðir af vatni og eitthvað magn matar til að komast í gegnum árásir hersveita okkar,“ sagði Sobolevskyi.

Loftárásir Rússa standa enn yfir í Donetsk, Mykolaiv og Kharkív. Árásirnar eru sagðar linnulausar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×