Viðskipti innlent

Þorskur úr plöntum á markað á næsta ári

Ellen Geirsdóttir Håkansson skrifar
Aðsent

Frumkvöðlafyrirtækið Loki foods hyggst setja fiskflök sem hæfa plöntumiðuðu fæði á markað árið 2023. Fyrirtækið hefur hlotið 85 milljóna króna fjárfestingu frá hinum ýmsu fjárfestum.

Stofnendur fyrirtækisins eru Chris McClure og Björn V. Aðalbjörnsson. Chris segir að hingað til hafi sjávarafurðir sem eru að stofni til úr plöntum ekki verið nógu aðlaðandi til þess að sannfæra neytendur um að kaupa slíkar vörur. Hann segir markað plöntumiðaðra sjávarafurða vera ört vaxandi, meðal annars vegna hnattrænnar hlýnunar.

Fyrirtækið stefnir á að setja vöru sem er að stofni til úr plöntum og líkist þorski á markað árið 2023. Einnig muni fyrirtækið hefja sölu á lax, túnfisk og styrjuhrognum úr plöntum fyrir árið 2026. „Þorskurinn“ sem er fyrstur á markað segir forstjóri Loki foods að verði jafnvígur fisknum sjálfum þegar kemur að næringarinnihaldi, bragði, áferð og fleiru. Neytendur sleppi til dæmis við örplastið og þungamálmana sem finnist gjarnan í fiski.

„Þorskurinn“ frá Loki foods.Aðsent

„Sem fyrirtæki frá helstu sjávarafurðaborg í heimi er það okkar sýn að Ísland verði fremst í flokki þegar kemur að og framleiðslu sjávarafurða úr plöntum og rannsókna í þeim efnum,“ segir Chris í skriflegu svari til fréttastofu.

Loki Foods hefur hlotið fjárfestingar frá hinum ýmsu aðilum eins og íslenska sjóðnum MGMT Ventures, Sustainable Food Ventures og VegInvest.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×