Erlent

Segja íbúa verjast af hörku en saka Rússa um að varpa fos­fór­sprengjum

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Björgunarstarf hélt áfram í dag í bænum Serhiivka við hafnarborgina Odesa eftir að Rússar vörpuðu sprengjum meðal annars á fjölbýlishús. 
Björgunarstarf hélt áfram í dag í bænum Serhiivka við hafnarborgina Odesa eftir að Rússar vörpuðu sprengjum meðal annars á fjölbýlishús.  AP/Maxim Penko

Úkraínskir hermenn berjast af hörku við rússneskar hersveitir í norðurhluta Úkraínu en ekkert lát er á árásum Rússa í austurhlutanum. Úkraínski herinn hefur meðal annars sakað Rússa um að varpa fosfór sprengjum á Snákaeyju. Talsmaður hersins segir Rússa óttast mótspyrnu heimamanna. 

Árásir Rússa í Úkraínu héldu áfram í dag en úkraínski herinn greindi frá átökum í norðurhluta landsins, við Tsjernihív, Sumy og Kharkív, þar sem Rússar reyndu að halda aftur af úkraínska hernum. Þá héldu linnulausar árásir sömuleiðis áfram í austurhluta landsins, til að mynda í Donetsk og Lysychansk, þar sem mestu átökin eiga sér nú stað.

Rússar hafa einnig aukið viðbúnað sinn við Svartahaf en borgarstjóri Mykolaiv, sem liggur við Svartahaf, greindi í dag frá fjölda sprenginga í borginni. Ekki liggur fyrir hvort um hafi verið að ræða árásir af hálfu Rússa en þeir viðurkenndu þó að hafa skotið á vopnageymslur í borginni. 

Í gær skutu Rússar sömuleiðis á níu hæða fjölbýlishús sem og sumarbúðir í bænum Serhiivka skammt frá hafnarborginni Odesa og hélt björgunarstarf þar áfram í dag en að minnsta kosti 21 lést í árásunum. Yfirvöld í Kreml þvertaka enn fyrir það að hersveitir Rússa skjóti á almenna borgara, þrátt fyrir ýmsar sannanir þess efnis.

Seint í gærkvöldi birti úkraínski herinn síðan myndband sem þeir segja að sýni Rússa varpa fosfórsprengjum á Snákaeyju sem liggur í Svartahafi en Rússar hörfuðu þaðan í vikunni. 

Oleksandr Shtupun, talsmaður úkraínska hersins, sagði í dag að herflugvél á þeirra vegum fylgist vel með svæðinu við Svartahaf, sem og svæðinu í austurhluta landsins. 

„Rússneska hernámsliðið og skósveinar þess óttast mótspyrnu heimamanna sem fer vaxandi, einkanlega í héraðinu Kherson. Foringjar innrásarliðsins fara um með mikla öryggisgæslu í brynvörðum bílum og brynklæðum. Íbúar svæðanna halda áfram að verjast af hörku,“ sagði Shtupun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×