Erlent

Bandaríkjamenn telja Pútín enn vilja ná stórum hluta Úkraínu á sitt vald

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Haines segir líkur á að Rússar grípi til annarra úrræða, til að mynda tölvuárása og tilrauna til að stjórna orkuframboði.
Haines segir líkur á að Rússar grípi til annarra úrræða, til að mynda tölvuárása og tilrauna til að stjórna orkuframboði. epa/Michael Reynolds

Öryggisyfirvöld í Bandaríkjunum telja Vladimir Pútín Rússlandsforseta enn vilja ná stórum hluta Úkraínu á sitt vald. Þau segja hersveitir Rússa hins vegar orðnar svo rýrar að þær séu eingöngu færar um hægfara sókn.

Þetta segir Avril Haines, yfirmaður leyniþjónusta Bandaríkjanna, þýða að stríðið muni mögulega vara í langan tíma. Hún segir að þrátt fyrir að Rússar hafi ákveðið að einbeita sér að því að „frelsa“ Donbas eftir að þeim mistókst að ná Kænugarði, virðist þeir enn staðráðnir í að hernema stóran hluta Úkraínu.

Haines segir hins vegar ólíklegt að það markmið muni nást í bráð.

„Við sjáum misræmi milli skammtíma hernaðarmarkmiða Pútín og getu herafla hans, metnaður hans fer ekki saman við það sem herinn getur,“ sagði Haines á ráðstefnu.

Hún sagði útlitið ekki bjart og að gera mætti ráð fyrir að átökin myndu standa yfir í langan tíma.

Yfirvöld í Bandaríkjunum hefðu dregið upp þrjár sviðsmyndir um það hvernig stríðið myndi ganga og sú líklegasta væri hægfara sókn Rússa. Þetta kynni að verða til þess að Rússar gripu í auknum mæli til annars konar úrræða, til að mynda tölvuárása, tilrauna til að stjórna orkuframboði og jafnvel notkun kjarnorkuvopna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×