Íslenski boltinn

Fram kaupir Almar frá Val

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Almarr Ormarsson er kominn aftur til Fram.
Almarr Ormarsson er kominn aftur til Fram. vísir/Hulda Margrét

Fram hefur keypt Almar Ormarsson frá Val. Hann snýr því aftur til liðsins sem hann lék með á árunum 2008-13. Almarr skrifaði undir tveggja ára samning við Fram.

Almarr kom við sögu í fjórum leikjum með Val í Bestu deildinni í sumar. Hann gekk í raðir Vals fyrir síðasta tímabil. Í fyrra spilaði hann tuttugu af 22 deildarleikjum Vals.

Hinn 34 ára Almarr er einn leikjahæsti leikmaður í sögu efstu deildar með 255 leiki. Í þeim hefur hann skorað fjörutíu mörk. Hann hefur einnig leikið 69 leiki og skorað níu mörk í næstefstu deild.

Almarr lék með Fram í fimm og hálft ár áður en hann fór til KR fyrir tímabilið 2014. Hann varð bikarmeistari með Fram 2013 og skoraði tvö mörk í bikarúrslitaleiknum gegn Stjörnunni. Almarr hefur einnig leikið með KA og Fjölni.

Fram er í 8. sæti Bestu deildarinnar með tíu stig eftir tíu umferðir. Næsti leikur Fram er gegn Keflavík suður með sjó á sunnudaginn. Almarr gæti þá leikið sinn fyrsta leik í bláu treyjunni í níu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×