Viðskipti innlent

Arion banki fyrstur til að hækka vexti

Bjarki Sigurðsson skrifar
Arion banki er fyrstur íslenskra banka til að hækka vexti eftir að Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti í síðustu viku.
Arion banki er fyrstur íslenskra banka til að hækka vexti eftir að Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti í síðustu viku. Vísir/Vilhelm

Á morgun munu inn- og útlánavextir hjá Arion banka hækka í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabanka Íslands. Breytingarnar ná til óverðtryggða íbúðalána, kjörvaxta, bílalána og innlána. Íslandsbanki hefur einnig boðað hækkanir þann 1. júlí næstkomandi.

Seðlabanki Íslands hækkaði stýrivexti fyrir tæpri viku síðan um eitt prósent. Þeir eru nú orðnir 4,75 prósent sem er það hæsta síðan árið 2017. Í mars árið 2021 voru þeir 0,75 prósent og hafa því hækkað um fjögur prósent á rúmu ári.

Óverðtryggðir breytilegir íbúðalánavextir hjá Arion banka munu hækka um eitt prósent frá og með morgundeginum og verða 6,59 prósent. Óverðtryggðir fastir þriggja ára íbúðalánavextir hækka um 0,25 prósent og verða 7,75 prósent.

Almennir ótryggðir kjörvextir hækka um eitt prósentustig og verða 7,6 prósent og hækka yfirdráttarvextir og vextir greiðsludreifinga einnig um eitt prósent. Sömu söguna má segja um kjörvexti bílalána sem nú eru átta prósent.

Breytilegir óverðtryggðir vextir sparnaðarreikninga hækka um allt að eitt prósentustig og vextir veltureikninga um 0,1 prósent.

Íslandsbanki hækkar einnig vexti

Íslandsbanki mun hækka vexti sína um mánaðarmótin og tekur hækkunin gildi 1. júlí. Þar hækka breytilegir vextir húsnæðislána um eitt prósentustig en fastir vextir óverðtryggðra húsnæðislána til þriggja ára um 0,3 prósentustig.

Breytilegir vextir til verðtryggðra húsnæðislána hækka um 0,85 prósent og fastir vextir verðtryggðra lána til fimm ára um 0,4 prósent. Yfirdráttarvextir einstaklinga hækka um eitt prósent.

Breytilegir óverðtryggðir kjörvextir hækka um eitt prósent, breytilegir verðtryggðir kjörvextir um 0,6 prósent og breytilegir óverðtryggðir kjörvextir bílalána, Ergo og bílasamninga um eitt prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×