Erlent

Hundrað og eins árs gamall fyrrum fanga­vörður dæmdur í fimm ára fangelsi

Árni Sæberg skrifar
Maðurinn hefur ekki verið nafngreindur og hann lét ekkert sjá í andlit sitt fyrir dómi í dag.
Maðurinn hefur ekki verið nafngreindur og hann lét ekkert sjá í andlit sitt fyrir dómi í dag. Michele Tantussi/AP

Dómstóll í Brandenburg dæmdi hundrað og eins árs gamlan mann til fimm ára fangelsisrefsingar í dag fyrir hlutverk hans í helförinni. Maðurinn var fangavörður í hinum illræmdu Sachsenhausen útrýmingarbúðum á árunum 1942 til 1945. Hann neitaði sök í málinu og sagðist ekkert hafa vitað af voðaverkunum sem framin voru í Sachsenhausen.

Maðurinn er sá elsti sem hlotið hefur dóm fyrir þátttöku í helförinni en Þjóðverjar hafa frá árinu 2011 stungið nokkrum eldri mönnum í fangelsi fyrir það að hafa verið fangaverðir í útrýmingarbúðum. 

Árið 2011 var sett dómafordæmi sem gerði dómurum kleift að dæma menn fyrir þátttöku í helförinni án þess að sannað væri að þeir hefðu með beinum hætti komið að morðum sem framin voru í útrýmingarbúðum. John Demjanjuk var þá dæmdur í fimm ára fangelsi.

Tugir þúsunda fanga voru myrt í Sachsenhausen fangabúðunum frá stofnun þeirra árið 1936 til loka seinni heimstyrjaldarinnar árið 1945. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu safns um fangabúðirnar voru sumir fanganna fórnarlömb kerfisbundinnar útrýmingar. Maðurinn var ákærður fyrir hlutdeild í morðum 3.500 þeirra sem létust.

„Með starfi þínu tókst þú þátt í fjöldaútrýmingu af fúsum og frjálsum vilja,“ sagði dómarinn í málinu, Udo Lechtermann.

Í frétt Deutsche Welle segir að maðurinn muni að öllum líkindum ekki afplána dóminn, enda er hann ansi gamall.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×