Fótbolti

Þor­leifur á skotskónum og valinn maður leiksins

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þorleifur kom sínum mönnum á bragðið.
Þorleifur kom sínum mönnum á bragðið. Twitter@HoustonDynamo

Tveir Íslendingar léku í MLS-deildinni í fótbolta í nótt. Þorleifur Úlfarsson skoraði fyrra mark Houston Dynamo í 2-0 sigri og Róbert Orri Þorkelsson kom af bekknum í 2-1 sigri CF Montréal. Þá skoraði Óttar Magnús Karlsson í sigri Oakland Roots.

Þorleifur byrjaði leik Dynamo og Chicago Fire úti á vinstri vængnum í 4-2-3-1 leikkerfi heimamanna. Kom hann sínum mönnum yfir um miðbik fyrri hálfleiks með skemmtilegu skoti og virtist það lengi vel ætla að vera eina mark fyrir hálfleiksins.

Rétt áður en dómarinn flautaði til hálfleiks bætti Darwin Quintero við marki og staðan orðin 2-0. Reyndist það lokatölur leiksins þó Houston hafi bætt við marki í síðari hálfleik, það var dæmt af eftir að hafa verið skoðað af myndbandsdómara leiksins. 

Þorleifur var tekinn af velli þegar þrjár mínútur voru til leiksloka en hann var valinn maður leiksins að honum loknum.

Róbert Orri fékk ekki mikinn tíma inn á vellinum en hann kom inn af bekknum á 93. mínútu í 2-1 sigri Montréal á Carlotte. Montréal er í 2. sæti Austurdeildar með 26 stig eftir 16 leiki á meðan Houston er í 8. sæti Vesturdeildar með 21 stig eftir 16 leiki.

Óttar Magnús var á skotskónum fyrir lið sitt Oakland Roots sem spilar í Championship-deildinni í Bandaríkjunum. Skoraði hann úr vítaspyrnu í 3-1 sigri á varaliði Atlanta United. 

Roots er í 9. sæti Vesturdeildar með 24 stig eftir 19 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×