Erlent

Biden samþykkir herta byssulöggjöf

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Lagafrumvarpið sem Biden skrifaði undir í dag markar tímamót hvað löggjöf um vopnasölu varðar.
Lagafrumvarpið sem Biden skrifaði undir í dag markar tímamót hvað löggjöf um vopnasölu varðar. AP/Pablo Martinez Monsivais

Joe Biden Bandaríkjaforseti skrifaði í dag undir lagafrumvarp sem takmarkar rétt Bandaríkjamanna til byssukaupa. Frumvarpið felur í sér hertar bakgrunnsathuganir, takmarkar rétt þeirra sem hafa verið dæmdir fyrir heimilisofbeldi til vopnakaupa og auðveldar ríkjum að fjarlægja byssur af fólki sem er talið hættulegt.

Fulltrúar beggja flokka standa að baki lagafrumvarpinu sem þingið gaf lokasamþykki fyrir á föstudag. Í dag skrifaði Biden svo undir frumvarpið sem hann segir vera „sögulegt afrek.“

Frumvarpið herðir bakgrunnsathuganir á yngstu vopnakaupendum, takmarkar réttindi þeirra sem hafa verið dæmdir fyrir heimilsofbeldi til vopnakaupa og gerir fylkjum kleyft að setja inn lög sem auðvelda yfirvöldum að taka byssur af fólki sem er talið hættulegt.

Stærstur hluti af kostnaði lagafrumvarpsins, 13 milljörðum Bandaríkjadala, fer í að styrkja átök í geðheilbrigðismálum og styðja við þá skóla sem hafa orðið fyrir skotárásum.

Málamiðlun en samt sem áður tímamót  

Biden segir að þessi málamiðlun sem þingmenn beggja flokka, Demókrata og Repúblíkana, unnu að geri ekki allt sem hann vilji en innihaldi aðgerðir sem hann hefur lengi kallað eftir og munu bjarga lífum.

Nýja löggjöfin felur ekki í sér þær hertu reglur sem Demókratar hafa lengi talað fyrir, eins og bann við sölu á árásarvopnum (e. assault-style weapons) eða bakgrunnsathuganir fyrir öll viðskipti á vopnum. 

Hins vegar er þetta áhrifamesta breyting sem hefur verið gerð á lögum um vopnakaup síðan 1993 þegar þingið lagði bann við árásarvopnum, lög sem eru löngu útrunnin.


Tengdar fréttir

Komust að samkomulagi um herta byssulöggjöf

Hópur öldungadeildarþingmanna úr báðum flokkum Bandaríkjaþings hafa komist að samkomulagi um drög að nýju frumvarpi varðandi byssueign. Enn á eftir að skrifa frumvarpið en líklegt þykir að stuðningur sé við samkomulagið í öldungadeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×