Erlent

Varar við hamförum vegna matvælaskorts

Kjartan Kjartansson skrifar
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. AP/Mary Altaffer

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir hamförum af völdum vaxandi matvælaskorts, að sögn Antonios Guterres, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Stríðið í Úkraínu, uppskerubrestur vegna loftslagsbreytinga, kórónuveirufaraldurinn og ójöfnuðu leggist á eitt um að skapa fordæmalausan matvælavanda í heiminum.

„Það er raunveruleg hætt á að nokkrum hungursneyðum verði lýst yfir árið 2022 og 2023 gæti orðið enn verra,“ sagði Guterres í myndbandsskilaboðum til embættismanna frá auðugum ríkjum og þróunarríkjum sem eru saman komnir á fundi í Berlín.

Uppskera í Asíu, Afríku og Ameríkunum hafi orðið fyrir skakkaföllum þar sem bændur eigi erfitt með að takast á við hækkandi áburðar- og eldsneytisverð. Hætt sé við því að matvælaskortur verði í heiminum, að því er AP-fréttastofan hefur eftir Guterres.

Guterres sagði að ekkert ríki yrði ónæmt fyrir samfélags- og efnahagslegum áhrifum slíkra hamfara. Hundruð milljóna manna um allan heim fyndu nú þegar fyrir þeim áhrifum.

Kallaði framkvæmdastjórinn eftir skuldauppgjöf fyrir fátækustu ríkin til hjálpa þeim að ná endum saman og að einkagerinn hjálpaði til við að ná jafnvægi á matvælamörkuðum heimsins. Samningamenn Sameinuðu þjóðanna reyndu nú að ná samkomulagi til að gera Úkraínu kleift að flytja matvæli úr landi um Svartahaf og Rússum að selja mat og áburð án viðskiptaþvingana.

Annalena Baerbock, utanríkisráðherra Þýskalands, hafnaði fullyrðingum rússneskra stjórnvalda um að það væru vestræna viðskiptaþvinganir sem væru orsök matvælaskorts Benti hún á að Rússar hefðu flutt út eins mikið af hveiti í maí og júní í ár og í fyrra.

Nokkrir þættir hefðu leitt til matvælaskortsins en „það var árásarstríð Rússlands á Úkraínu sem breytti öldu í flóðbylgju“. 


Tengdar fréttir

Alvarlegur matvælaskortur í tuttugu löndum

Líklegt er að alvarlegur matvælaskortur eigi eftir að aukast á næstu mánuðum í tuttugu löndum eða á tilteknum svæðum, að mati Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) og Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×