Viðskipti innlent

Banka­sölu­skýrslu ekki lokið fyrir mánaðar­lok

Atli Ísleifsson skrifar
Forsætisráðherra sagðist við þinglok áskilja sér rétt til að kalla þing saman í sumar þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu ríkisins í Íslandsbanka yrði birt.
Forsætisráðherra sagðist við þinglok áskilja sér rétt til að kalla þing saman í sumar þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu ríkisins í Íslandsbanka yrði birt. Vísir/Vilhelm

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka verður ekki kláruð fyrir lok þessa mánaðar líkt og stefnt var að.

Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi segir þetta í samtali við Fréttablaðið. Hann segir að eins og staðan sé í dag muni skil dragast um einhverjar vikur en vonandi ekki meira en það. Ástæðuna segir hann vera að ýmislegt geti komið upp við gerð úttekta sem hafi áhrif á tímarammann.

Þingi var frestað í síðustu viku en Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að hún áskilji sér þó rétt til að kalla þing saman í sumar þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar um sölu ríkisins í Íslandsbanka yrði birt.

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra óskaði eftir því þann 7.apríl að Ríkisendurskoðun myndi gera úttekt á því hvort sala á hlutum ríkisins í Íslandsbanka hafi samrýmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum.

Degi síðar var svo greint frá því í tilkynningu frá Ríkisendurskoðun að stofnunin myndi verða við beiðni ráðherra um úttekt. Var sagt að niðurstöður úttektarinnar yrði birtar í opinberri skýrslu til Alþingis í júnímánuði, en nú er ljóst að það mun seinka um einhverjar vikur.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×