Klinkið

Stokkað upp í markaðsviðskiptum hjá Kviku

Ritstjórn Innherja skrifar
Stefán Eiríksson Stefánsson, Ólafur Bjarki Ágústsson og Vilhjálmur Vilhjálmsson.
Stefán Eiríksson Stefánsson, Ólafur Bjarki Ágústsson og Vilhjálmur Vilhjálmsson.

Tilkynnt var um talsverðar mannabreytingar innan Kviku í dag en á meðal þeirra sem hefur ákveðið að láta af störfum er Stefán Eiríks Stefánsson sem hefur verið forstöðumaður gjaldeyrismiðlunar bankans frá árinu 2015.

Við starfi hans, samkvæmt upplýsingum Innherja, tekur Vilhjálmur Vilhjálmsson en hann hefur að undanförnu verið sérfræðingur á skrifstofu forstjóra félagsins.

Vilhjálmur, sem á langa starfsreynslu að baki á fjármálamarkaði, var áður meðal annars forstöðumaður markaðsviðskipta hjá Arion banka auk þess sem hann var um árabil framkvæmdastjóri IFS Greiningar.

Sigurður Rúnar Ólafsson kemur til Kviku frá Landsbankanum.

Þá hafa þeir Ólafur Bjarki Ágústsson, sem hefur verið verðbréfamiðlari í markaðsviðskiptum Kviku og forverum bankans um margra ára skeið, og Jón Rúnar Ingimarsson, sérfræðingur í markaðsviðskiptum, sömuleiðis hætt störfum hjá Kviku.

Í þeirra stað hefur bankinn ráðið Sigurð Rúnar Ólafsson sem verðbréfamiðlara en hann hefur síðustu ár starfað hjá Landsbankanum en þar áður var hann hjá Íslenskum verðbréfum. Sigurður hefur lokið MSc. í fjárfestingarstjórnun frá Cass Business School í London og BSc. í fjármálum frá Háskóla Íslands.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.






×