Sport

Í efsta sæti heims­listans en ekki með á Wimbledon

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Daniil Medvedev er á toppi heimslistans.
Daniil Medvedev er á toppi heimslistans. EPA-EFE/Sander Koning

Daniil Medvedev er kominn í efsta sæti heimslistans í tennis. Novak Djokovic hafði setið í efsta sæti listans til þessa á árinu en hann er nú í 3. sæti. Medvedev fær hins vegar ekki að keppa á Wimbledon síðar í þessum mánuði.

Wimbledon er eitt sögufrægasta tennismót allra tíma enda fór fyrsta mótið fram árið 1877. Fyrir skemmstu tóku stjórnendur mótsins fram að tennisleikarar frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi myndu ekki fá að keppa í ár vegna innrásar Rússlands í Úkraínu og stuðnings Hvíta-Rússlands.

Mætti því ætla að Medvedev myndi missa toppsætið strax þar sem hann gæti ekki unnið sér inn stig á Wimbledon. Alþjóðatennissambandið var greinilega ósammála ákvörðun forráðamanna Wimbledon og ákvað því að mótið gildi ekki er kemur að stigasöfnun á heimslistanum.

Þrátt fyrir það verður Djokovic að sjálfsögðu á sínum stað er Wimbledon hefst en Serbinn á titil að verja. Er hann féll niður í 3. sæti heimslistans gerðist nokkuð sem hefur ekki gerst síðan í nóvember 2003. Það er að enginn af Djokovic, Rafael Nadal, Roger Federer eða Andy Murray sé í efstu tveimur sætum heimslistans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×