Viðskipti erlent

Opna McDonald's aftur í Rússlandi undir nýju nafni

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjölmargir skelltu sér á opnun nýju veitingastaðanna í Moskvu í morgun.
Fjölmargir skelltu sér á opnun nýju veitingastaðanna í Moskvu í morgun. AP/Dmitry Serebryakov

Veitingastaðir McDonald‘s í Rússlandi voru opnaðir á nýjan leik í morgun eftir að stórfyrirtækið yfirgaf landið fyrr í vor vegna innrásarinnar í Úkraínu. Litlar breytingar hafa verið gerðar á veitingastöðunum eða matnum sem seldur er þar.

Alexander Govor, rússneskur auðjöfur keypti um 850 veitingastaði McDonald's, ætlar að opna þá alla aftur fyrir haustið og segist vera með um 51 þúsund manns í vinnu.

Fyrirtækið heitir nú „Vkusno & tochka“ ­sem lauslega þýtt er „Bragðgott & hananú“.

Í fyrstu verða fimmtán veitingastaðir í og nærri Moskvu opnaðir. Oleg Paroev, fyrrverandi framkvæmdastjóri McDonald‘s í Rússlandi og núverandi framkvæmdastjóri Vkusno & tochka segir samkvæmt Reuters að um tvö hundruð staðir verði opnaðir fyrir lok mánaðarins.

Fréttaveitan hefur eftir Paroev að vonast sé til þess að viðskiptavinir fyrirtækisins verði ekki vanir við neinar breytingar. Hvorki á matnum né andrúmsloftinu en staðirnir verða áfram reknir með innanhúsmunum McDonald‘s.

Hér má sjá myndefni AP fréttaveitunnar frá Moskvu í morgun.

Klippa: Enduropnun McDonald's undir nýju nafni í Moskvu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×