Fótbolti

Bale hefur áhyggjur af leikjaálagi: „Eitthvað verður að breytast“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Gareth Bale hefur áhyggjur af leikjaálagi knattspyrnumanna.
Gareth Bale hefur áhyggjur af leikjaálagi knattspyrnumanna. Ryan Hiscott/Getty Images

Knattspyrnumaðurinn Gareth Bale hafur kallað eftir því að knattspyrnuyfirvöld endurskoði leikjaniðurröðun sína með tilliti til leikjaálags á leikmenn.

Sjálfur hefur Bale ekki upplifað þetta mikla leikjaálag seinustu misseri, en hann hefur verið fastagestur á varamannabekk Real Madrid síðastliðin ár.

Bale er nú í landsliðsverkefni með velska landsliðinu, en liðið mætir Belgum í Þjóðadeildinni í kvöld. Fyrir leikinn ræddi hann við blaðamenn og viðraði þar áhyggjur sínar af álagi á knattspyrnumenn.

„Þetta er klikkað. Við vorum að tala um þetta um daginn og einhver nefndi þetta við borðið þegar við vorum að fá okkur hádegismat. [Kevin] De Bruyne gæti spilað 79 leiki á næsta tímabili og fengið þriggja vikna frí,“ sagði Bale áhyggjufullur.

„Þetta er of mikið. Ég held að þetta verði að breytast. Ég held að hvaða leikmaður sem er muni segja þér að þetta séu allt of margir leikir. Það er ómögulegt að spila svona marga leiki í svona háum gæðaflokki.“

„Afleiðingarnar af þessu leikjaálagi til lengri tíma eru að líkaminn ræður ekki við svona leikjaálag ár eftir ár eftir ár. Eitthvað verður að breytast og þeir sem stjórna verða að gera eitthvað í þessu,“ sagði Bale að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×