Erlent

Vaktin: Stríðið kosti Rússa 300 hermenn á dag

Hólmfríður Gísladóttir og Ólafur Björn Sverrisson skrifa
Zelenzkiy á fundi ráðamanna Tékklands, Póllands og Slóveníu.
Zelenzkiy á fundi ráðamanna Tékklands, Póllands og Slóveníu. Getty

Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segir í viðtali við Financial Times að pattstaða í stríðinu við Rússa sé ekki valkostur og að Úkraína verði að hafa sigur á vígvellinum. Hann segir skort á vopnum hamla gagnsókn Úkraínuhers.

Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu.

Helstu vendingar:

  • Í viðtalinu við Financial Times var Selenskí spurður að því hvað „sigur“ þýddi í hugum Úkraínumanna. Forsetinn sagði það myndu vera „góðan tímabundinn sigur“ að endurheimta það svæði sem Rússar hefðu náð á sitt vald frá því að innrásin hófst. Fullnaðarsigur væri hins vegar að endurheimta einnig Krímskaga, sem Rússar innlimuðu árið 2014.
  • Selenskí ítrekaði að hann væri reiðubúinn til að ræða við Vladimir Pútín Rússlandsforseta og sagði engan annan að ræða við.
  • Breska varnarmálaráðuneytið segir Úkraínumenn enn veita mótspyrnu í borginni Severodonetsk en harðar árásir Rússa halda áfram. Ríkisstjóri Luhansk segir hermenn Úkraínu ekki munu láta borgina falla á meðan þeir geta enn barist.
  • Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni eru aftur farnar að berast sjálfvirkar mælingar frá geislamælum umhverfis Tjernobyl-kjarnorkuverið. Sendingarnar hættu þegar Rússar náðu verinu á sitt vald skömmu eftir að innrásin hófst.
  • Rússneska fréttastofan TASS segir um þúsund úkraínska hermenn sem gáfu sig fram við Rússa í Azovstal-verksmiðjunni í Maríupól hafa verið flutta til Rússlands vegna rannsóknar. Fleiri verði fluttir þangað „seinna“.
  • Angela Merkel, fyrrverandi kanslari Þýskalands, sagði í viðtali í gær að hún hefði freistað þess að koma í veg fyrir atburð á borð við innrás Rússa í Úkraínu og að hún sæi ekki eftir samskiptum sínum við Vladimir Pútín Rússlandsforseta.



Fleiri fréttir

Sjá meira
×