Viðskipti innlent

Mesta hækkun á leigu­verði í tæp tvö ár

Atli Ísleifsson skrifar
Tólf mánaða hækkun á leiguverði mælist nú tæp átta prósent.
Tólf mánaða hækkun á leiguverði mælist nú tæp átta prósent. Vísir/Arnar

Hækkun á leiguverði á höfuðborgarsvæðinu milli mánaða mældist 2,1 prósent í apríl og er um að ræða mesta hækkunin síðan í júní 2020.

Frá þessu segir í Hagsjá Landsbankans. Þar kemur fram að leiguverð hafi þróast með afar rólegum hætti frá því að heimsfaraldurinn skall á, ólíkt kaupverði íbúða.

Tólf mánaða hækkun á leiguverði mælist nú tæp átta prósent, sem sé þó afar hóflegt í samanburði við hækkun íbúðaverðs. Segir að til lengri tíma litið fylgist leigu- og kaupverð þó yfirleitt að og sé því ekki ólíklegt að annað hvort hægi á hækkunum íbúðaverðs eða leiguverð taki við sér til þess að jafnvægi náist að nýju.

„Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,1% milli mánaða í apríl sem er talsvert meiri hækkun en á síðustu mánuðum. Í mars lækkaði t.a.m. leiguverð að jafnaði um tæpt hálft prósentustig. Faraldurinn hefur haft mikil áhrif á eftirspurn eftir húsnæði til kaupa. Vextir á íbúðalánum lækkuðu töluvert í kjölfar stýrivaxtalækkana Seðlabankans og jókst þá kaupgeta margra. Við slíkar aðstæður dregst eftirspurn eftir leiguhúsnæði saman. Það, ásamt fækkun ferðamanna og þar með samdrætti í útleigu íbúða til þeirra, gerði það að verkum að spenna dróst verulega saman á leigumarkaði,“ segir í Hagsjánni.

Vesturhluti Reykjavíkur dýrasta svæðið

Þá segir að samanburður á fermetraverði tveggja og þriggja herbergja íbúða samkvæmt nýþinglýstum leigusamningum frá janúar fram í apríl, gefi til kynna að leiga sé hæst í vesturhluta Reykjavíkur þar sem leiguverð hækki um 8,1 prósent á milli ára í tilfelli þriggja herbergja íbúða og 10,4 prósent í tilfelli tveggja herbergja íbúða.

„Á eftir vesturhluta Reykjavíkur mælist austurhluti Reykjavíkur, dýrasta svæðið samkvæmt nýþinglýstum leigusamningum hvort sem litið er til tveggja eða þriggja herbergja íbúða en litlu munar á leiguverði að jafnaði á milli hverfa höfuðborgarsvæðisins, samkvæmt tölum Þjóðskrár. Leiguverð mælist lægst í Mosfellsbæ og á Kjalarnesi það sem af er ári hvort sem litið er til tveggja eða þriggja herbergja íbúða,“ segir í Hafsjá Landsbankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×