Viðskipti innlent

Slegist um þjóna og kokka í ferða­þjónustunni

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar.
Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. Vísir/Egill

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir ferðaþjónustuna hafa tekið hraðar við sér eftir faraldurinn en fólk almennt hafði gert ráð fyrir og er svo komið að mörg ferðaþjónustufyrirtæki hafa lokað fyrir sölu. Mikil vöntun er þó á matreiðslufólki og þjónum í sumar og er slegist um þetta starfsfólk.

Snemma í vor fór að bera á áhyggjum innan ferðaþjónustunnar yfir því að hugsanlega tækist ekki að manna nauðsynlegar stöður fyrir ferðamannasumarið.

„Heilt yfir hefur þetta þó gengið betur en menn þorðu að vona en hins vegar er ennþá skortur í ákveðnum starfsgreinum og er hann einkum meðal framleiðslufólks og kokka þar sem hreinlega vantar ennþá fólk og það er mikil áskorun.“

Bjarnheiður segir að þetta vandamál sé alls ekki bundið við Ísland því slegist sé um matreiðslu-og framreiðslufólk í Evrópu.

„Mjög margt starfsfólk sem hefur verið hjá okkur undanfarin ár hefur komið erlendis frá og það er bara ósköp endilega þannig að við höfum sjálf ekki nógu margt starfsfólk til að manna okkar helstu atvinnuvegi þannig að stór hluti starfsfólks sem kemur inn á hótelin og veitingastaðina kemur erlendis frá.“

Síðustu ár hefur fólk frá Austur-Evrópu mannað þessar stöður.

„En við erum að sjá þróun núna að það eru að koma inn „ný þjóðerni“, til dæmis frá Spáni, Portúgal og jafnvel Grikklandi sem má segja að sé nýtt hjá okkur.“

Bjarnheiður segir að það hafi komið fólki á óvart hversu skjótur batinn var innan ferðaþjónustunnar eftir kórónuveirufaraldurinn.

„Það er jafnvel orðið þannig að fyrirtæki sem eru að selja úti á mörkuðum eru farin að loka fyrir sölu því það getur ekki annað fleiri viðskiptavinum. Það eru nánast allir bílaleigubílar uppseldir í sumar, hótelrými, sérstaklega úti á landsbyggðinni, uppurin, þannig að við erum komin á þann stað núna að þurfa bara að segja nei, sem er náttúrulega eitthvað sem okkur finnst ekki skemmtilegt að þurfa að gera,“ sagði Bjarnheiður.


Tengdar fréttir

Gera ráð fyrir 5,7 milljónum far­þega

Farþegaspá Isavia fyrir árið 2022 gerir ráð fyrir að 5,7 milljónir farþega muni fara um Keflavíkurflugvöll í ár. Gerir spáin ráð fyrir að í ár verði fjöldi farþega 79 prósent af þeim fjölda sem fór um völlinn árið 2019.

„Ég er hræddur um að myndin sé enn svartari“

Á föstudag var skýrsla gerð opinber um heildarendurskoðun laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Þar kom í ljós að á árunum 2018-2020 hafi rekstrarhalli vegna þjónustu við fatlað fólk farið úr 2,9 milljörðum króna og upp í 8,9 milljarða. Rekstrarhalli hafi þrefaldast á þessu tímabili.

Skemmti­­ferða­­skipin lygi­­lega fljót að taka við sér

Ísa­fjarðar­bær stendur nú í framkvæmd fyrir milljarð ­króna til að stækka höfn sína til þess að geta tekið á móti enn fleiri skemmti­ferða­skipum. Árið 2022 verður nefni­lega met­ár þegar kemur að komu skemmti­ferða­skipa til Ísa­fjarðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×