Fótbolti

Stuðningsmenn ruddust inn á völlinn og köstuðu blysum í átt að leikmönnum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stuðningsmenn Saint-Etienne hafa komið sér í vandræði oftar en einu sinni á tímabilinu.
Stuðningsmenn Saint-Etienne hafa komið sér í vandræði oftar en einu sinni á tímabilinu. Marcio Machado/Eurasia Sport Images/Getty Images

Stuðningsmenn Saint-Etienne brugðust hinir verstu við þegar liðið féll úr frönsku úrvalsdeildinni í fótbolta eftir tap í vítaspyrnukeppni gegn Auxerre í úrslitum umspilsins í dag.

Eftir 1-1 jafntefli í fyrri leik liðanna og annað 1-1 jafntefli í síðari leiknum þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni til að skera úr um hvort Saint-Etienne eða Auxerre fengi sæti í frönsku úrvalsdeildinni á næsta tímabili.

Auxerre vann vítaspyrnukeppnina 5-4 og Saint-Etienne mun því ekki leika í deild þeirra bestu í fyrsta skipti í 18 ár.

Um leið og sigur Auxerre var í höfn ruddust fleiri hundruð stuðningsmanna Saint-Etienne inn á völlinn. Margir þeirra köstuðu blysum í átt að aðalstúku vallarins og aðrir tóku upp á því að kasta blysum í átt að leikmannagöngunum.

Lögrelumenn vopnaðir kylfum og skjöldum beittu táragasi til að dreifa mannfjöldanum og leikmenn flúðu inn í klefa eins fljótt og þeir gátu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti á tímabilinu sem stuðningsmenn Saint-Etienne eru til vandræða. Félagið hefur fengið refsingu nokkrum sinnum á tímabilinu og einn hluti stúkunnar var lokaður í dag sökum óláta stuðningsmanna gegn Monaco í seinasta mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×