Innlent

Hundrað tonn af sælgæti á mánuði frá Helga í Góu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Helgi gerir töluvert af því að taka á móti góðum gestum í Góu. Hér er hann að sína nokkrum Selfyssingum verksmiðjuna sína.
Helgi gerir töluvert af því að taka á móti góðum gestum í Góu. Hér er hann að sína nokkrum Selfyssingum verksmiðjuna sína. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Helgi Vilhjálmsson í Góu er ekki að baki dottinn þó hann sé orðinn áttræður því hann framleiðir hundrað tonn af sælgæti á hverjum mánuði og hefur varla undan að framleiða ofan í landsmenn. Þá hefur hann byrgt lagerinn sinn upp vegna ástandsins í heiminum.

Það er alltaf gaman að heimsækja Helga í Góu enda hefur hann munninn fyrir neðan nefið og þorir að tjá sig um málefni líðandi stundar umbúðalaust.

„Ég er nokkuð hress orðinn 80 ára gamall og það er bara mjög gaman af þessu öllu saman, það er eitt orð yfir þetta, þess vegna er þetta kannski til hjá mér. Ég hef verið mjög heppin með bæði sælgætið og kjúklinginn í þessum bransa, sem ég hef valið mér á lífsleiðinni, það er mjög gaman af þessu,“ segir Helgi léttur í bragði.

En hvað er Góa að framleiða mikið af sælgæti?

„Það er eitthvað hundrað tonn á mánuði, svo verður fólk bara að reikna. Þetta er allt meira og minna fyrir markaðinn hér heima, ég sendi svolítið út en það er ekkert til að tala um. Ef maður færi að framleiða eitthvað til þessara landa, sem eru milljónir manna, það yrði allt annar pakki,“ segir Helgi og bætir við.

„Uppáhaldið mitt eru alltaf karamellurnar, sem ég byrjaði á, svo koma hraun og rúsínur á eftir.“

Helgi Vilhjálmsson í Góu, sem er 80 ára gamall og alltaf að í fyrirtækjum sínum, Góu og KFC kjúklingnum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Lagerinn hjá Góu í Garðabæ er troðfullur af fjölbreyttu hráefni í sælgætisframleiðsluna enda segist Helga vilja eiga nóg, ekki síst út af ástandinu í heimsmálunum.

„Já, þegar maður býr til 100 tonn þá þarf maður að eiga 100 tonn. Þetta er helvíti mikið á hverjum degi, tvö hundruð tonn á mánuði inn og út. Ég er búmaður, maður þarf að eiga hey inn í hlöðunni fyrir veturinn,“ segir hann og hlær.

Er stríðið í Úkraínu eitthvað að hafa áhrif?

„Já, maður er að heyra það. Það getur vel verið að það getið farið að koma í ljós. Mér finnst það stríð vera út í mýri. Ég hélt að allt fólk væri búið að læra svo mikið í góðum háskólum að maður myndi ekki sjá þetta aftur,“ segir Helgi í Góu, aldrei brattari.

Um hundrað tonn af sælgæti koma frá Góu í hverjum mánuði. Um 40 manns vinna í framleiðslunni í Garðabæ.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×