Meginstarfsemi Hraðfrystihússins felst í útgerð þriggja togara, eins rækjubáts, fiskvinnslu í Hnífsdal og lifrarniðursuðu í Súðavík. Hjá fyrirtækinu starfa um 130 manns og samanlagður afli skipa félagsins á árinu 2021 var 15.760 tonn. Hraðfrystihúsið er með um 1,8 prósenta hlutdeild í úthlutuðum aflaheimildum á meðal íslenskra útgerðarfyrirtækja.
Rekstrartekjur félagsins námu um 41 milljón evra á síðasta ári, jafnvirði um 5,7 milljarða króna, og jukust um 9,1 prósent milli ára. Eignir sjávarútvegsfyrirtækisins námu 101 milljón evra, jafnvirði 14 milljarða króna, í lok síðasta árs og eigið féð nam 34 milljónum evra.
Seljendur eru systkinin Guðmundur, Kristinn Þórir, Ólöf Jóna og Steinar Örn Kristjánsbörn en þau hafa átt eignarhlutinn í áratugi.
Eftir kaupin verður Jakob Valgeir annar stærsti hluthafi Hraðfrystihússins en sá stærsti er eftir sem áður félagið Ísfirsk fjárfesting, sem er í eigu Ingu Steinunnar Ólafsdóttur og Kristjáns Guðmundar Jóhannssonar, með rúm 28 prósent.
Jakob Valgeir ehf. er með um 0,95 prósenta hlutdeild í úthlutuðum aflaheimildum á meðal íslenskra útgerðarfyrirtækja.
Eftir hlutafjárútboð Íslandsbanka í mars var komst Jakob Valgeir á listann yfir stærstu hluthafa bankans með 1,02 prósenta hlut. Félagið var hins vegar horfið af listanum í byrjun síðustu viku. Þá á Jakob Valgeir 10,5 prósenta hlut í Iceland Seafood International og um 0,5 prósenta hlut í fjárfestingafélaginu SKEL.