Erlent

Faðir Helstirnisins og X-vængjunnar látinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Stjörnustríðsaðdáandi þurrkar af eftirlíkingu af X-vængju fyrir ráðstefnu í Þýskalandi.
Stjörnustríðsaðdáandi þurrkar af eftirlíkingu af X-vængju fyrir ráðstefnu í Þýskalandi. Vísir/Getty

Colin Cantwell, listamaðurinn sem hannaði mörg þekktustu geimför Stjörnustríðsheimsins eins og Helstirnið og X-vængjuna, er látinn, níræður að aldri. Hann vann einnig við opnunaratriði 2001: Geimævintýraferðar Stanleys Kubrick.

Það var George Lucas, skapari Stjörnustríðs, sem fékk Cantwell til að hann og smíða frumgerðir að Helstirninu, X-vængjunni, TIE-orrustuflaugunum og stjörnuspillum keisaraveldisins fyrir fyrstu Stjörnustríðsmyndina sem kom út árið 1977. Cantwell hannaði einnig fyrstu útgáfuna af Þúsaldarfálkanum, fráasta geimfarsins í Stjörnustríðsheiminum.

Cantwell var menntaður í teiknimyndagerð en lærði einnig arkítektúr. Hann starfaði meðal annars hjá bandarísku geimvísindastofnuninni NASA og Þrýstihreyfilstilraunastofuna (JPL) þar sem hann tók þátt í að fræða almenning um geimferðir í kapphlaupi Bandaríkjanna og Sovétríkjanna á 7. áratug síðustu aldar, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Þegar Bandaríkjamenn sendu menn til tunglsins í fyrsta skipti árið 1969 vann Cantwell með Walter Conkite, goðsagnarkennda sjónvarpsfréttamanninum og tengdi hann við tunglfarana.

Hæfileikar Cantwell nýttust vel í Hollywood. Fyrsta kvikmyndin sem hann kom nálægt var 2001 Kubrick árið 1968 og vann hann meðal annars við tæknibrellur fyrir frægt opnunaratriði í geimnum.

Síðar vann Cantwell með Steven Spielberg að Nánum kynnum við þriðju tegundina og skrifaði tvær vísindaskáldsögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×