Enski boltinn

Ráð­herrar hræddir um að salan á Chelsea fari ekki í gegn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Todd Boehly, verðandi eigandi Chelsea?
Todd Boehly, verðandi eigandi Chelsea? Visionhaus/Getty Images

Breska ríkisútvarpið greinir frá því að ráðherrar ríkistjórnar Bretlands telji að mögulega muni salan á enska fótboltafélaginu Chelsea ekki ganga í gegn.

Chelsea hefur samþykkt tilboð hóps sem leiddur er af fjárfestinum Todd Boehly, meðeiganda hafnaboltaliðsins Los Angeles Dodgers. Tilboðið hljóðar upp á 4.25 milljarða punda eða rúmlega 693 milljarðar íslenskra króna.

Það virðist hins vegar ríkja óvissa innan bresku ríkisstjórnarinnar varðandi það hvar peningurinn sem mun fást fyrir félagið mun enda.

Roman Abramovich – núverandi eigandi Chelsea – er að reyna selja félagið eftir að upp komst um tengsl hans og Vladimir Pútin, Rússlandsforseta. Auðjöfurinn gaf út að hann ætlaði sér ekki að rukka Chelsea um þann einn og hálfa milljarð sem hann hefur lánað félaginu síðan hann festi kaup á því.

Í staðinn átti það fjármagn að renna til góðgerðamála en hann hefur ekki enn skrifað undir neitt sem staðfestir það.

Chelsea fær sem stendur að halda úti starfsemi sinni þökk sé sérstöku leyfi frá ríkisstjórn Bretlands en það leyfi rennur út 31. maí. Það virðist alls óvíst hvort félagið fái áframhaldandi leyfi en Roman vill ekki festa það í stein að ágóði sölu félagsins fari í góðgerðamál.

„Helstu tveir punktarnir eru að það er óvíst hver ágóðinn fer og hvaða lagalega staðfesting mun tryggja að peningurinn fari í góð málefni,“ segja heimildir breska ríkisútvarpsins.

Þá segir að allt þurfi að vera klappað og klárt snemma í júní þegar forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar hittast til að veita félögum keppnisleyfi fyrir komandi tímabil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×