Fótbolti

Fordæma eigin stuðningsmenn sem gerðu grín að Emiliano Sala

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Stuðningsmenn Nice gerðu grín að Emiliano Sala sem lést í flugslysi árið 2019.
Stuðningsmenn Nice gerðu grín að Emiliano Sala sem lést í flugslysi árið 2019. Jean Catuffe/Getty Images

Forráðamenn franska knattspyrnufélagsins Nice fordæma hluta af stuðningsmönnum sínum sem tóku upp á því að syngja söngva þar sem gert var grín að Emiliano Sala sem lést í flugslysi í janúar árið 2019.

Sala var aðeins 28 ára gamall þegar hann lést í flugslysi á leið sinni frá Frakklandi til Wales, en leikmaðurinn var að genga í raðir Cardiff frá Nantes.

Nice og Nantes áttust við í úrslitaleik frönsku bikarkeppninnar í fótbolta síðastliðinn laugardag í leik sem endaði með 1-0 sigri Nantes. Söngvar stuðningsmanna Nice heyrðust hins vegar síðastliðið miðvikudagskvöld þegar Nice vann 4-2 sigur gegn Saint-Etienne.

Í yfirlýsingu frá Nice segir að félagið fordæmi söngvana eins sterklega og mögulegt er.

„Félagið fordæmir þessa óhugsandi og ömurlegu ögrun minnihluta stuðningsmanna þess,“ sagði í yfirlýsingunni. „Nice sendir fjölskyldu og vinum Sala stuðning.“

Þá segist þjálfari liðsins, Christophe Galtier, hafa heyrt umrædda söngva og hann var vægast sagt sleginn.

„Ég á ekki til orðin til að lýsa því sem við heyrðum. Maður heyrir marga mismunandi hluti á fótboltavellinum, en þetta - hvaðan koma móðganir í garð látins fótboltamanns? Ef samfélagið okkar er orðið svona, þá eigum við við vandamál að stríða.“


Tengdar fréttir

Bar ábyrgð á andláti Emilianos Sala

David Henderson, sem skipulagði flugið sem fótboltamaðurinn Emiliano Sala lést í, hefur verið fundinn sekur um að hafa stofnað öryggi flugvélarinnar í hættu og bera þar með ábyrgð á slysinu.

Fótboltaheimurinn minnist Sala

Fótboltaheimurinn er í sárum eftir að Emiliano Sala lést í flugslysi en lík hans fannst í fyrradag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×