Innlent

Birgitta sett í heiðurssæti E-lista án hennar vitneskju

Kristján Már Unnarsson skrifar
Birgitta Jónsdóttir sat á Alþingi á árunum 2009 til 2017, síðast fyrir Pírata.
Birgitta Jónsdóttir sat á Alþingi á árunum 2009 til 2017, síðast fyrir Pírata. getty/giles clarke

„Ég hef ekki gefið neitt leyfi fyrir því að mitt nafn sé sett á þennan lista. Þannig að þetta er ekki í lagi,“ segir Birgitta Jónsdóttir, fyrrverandi alþingismaður, sem sér til mikillar undrunar er skráð í 24. sæti E-lista Reykjavíkur, bestu borgarinnar, sem býður fram lista fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík.

Birgitta kom af fjöllum í dag þegar fréttastofan hafði samband við hana og nefndi að hún skipaði heiðurssæti E-listans.

„Takk fyrir að láta mig vita. Ég þarf að hringja í þá og biðja þá um að taka nafn mitt af listanum. Þetta er mjög skringilegt,“ sagði Birgitta.

Spurð hvaða skýringu hún hefði á því hversvegna nafn hennar hefði ratað á framboðslistann án hennar samþykkis og vitneskju sagði Birgitta að forsvarsmenn listans hefðu haft samband við sig.

„Ég sagðist alveg vera til í að vera svona í bakgrunni, veita þeim ráð og svoleiðis, eins og ég geri fyrir marga. En ég hef ekki skrifað upp það að vera á lista hjá þeim.

Ég ætla ekki einu sinni að kjósa þá. Ég ætla að kjósa Pírata í þetta sinn,“ segir Birgitta, sem var einn helsti stofnandi Pírata og þingmaður flokksins frá 2013 til 2017. Áður hafði hún setið á Alþingi fyrir Borgarahreyfinguna og Hreyfinguna frá 2009.

Fréttastofa RÚV sagði frá því í sjónvarpsfrétt í síðasta mánuði þegar minnstu munaði að E-listinn næði ekki að skila inn framboðslista í tæka tíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×