Um­fjöllun og við­töl: ÍBV - Fram 18-20 | Eyja­­konur löguðu margt en það dugði ekki til

Einar Kárason skrifar
Fram er einum sigri frá úrslitaeinvígi Olís deildar kvenna í handbolta.
Fram er einum sigri frá úrslitaeinvígi Olís deildar kvenna í handbolta. Vísir/Hulda Margrét

Fram vann tveggja marka sigur í Vestmannaeyjum og er komið 2-0 yfir í undanúrslitaeinvígi liðanna í Olís deild kvenna í handbolta. ÍBV spilaði mun betur en í fyrsta leik liðanna en það dugði ekki til.

Eyjastúlkur áttu harm að hefna og skoruðu þær fyrsta mark leiksins áður en gestirnir jöfnuðu og komust því næst yfir áður en þær gerðu svo þriðja mark gestanna í röð. ÍBV svaraði kallinu og skoraði næstu fjögur mörkin og komnar tveimur mörkum yfir um miðjan fyrri hálfleik. Þær héldu eins og tveggja marka forskoti til skiptis allt þar til um tvær mínútur voru eftir af hálfleiknum þegar Fram skoraði tvö í röð og jöfnuðu leikinn í 9-9.

Ekki voru fleiri mörk skoruð og gengu liðin jöfn að mörkum inn í hálfleikinn. Varnarleikur beggja liða í fyrirrúmi fyrri þrjátíu mínúturnar.

Síðari hálfleikur virtist ætla að verða endurtekning af þeim fyrri en það var þó komið að gestaliðinu að leiða og heimaliðið elti. Ekki var mikið milli liðanna þegar um stundarfjórðungur var eftir af leiknum en þá dró til tíðinda. Lina Cardell fékk tveggja mínútna brottvísun og ÍBV manni færri, þegar Sara Dröfn Richardsdóttir fer inn á gólf sem sjöundi leikmaður og fær einnig brottvísun. Ekki batnaði það þegar Marija Jovanovic braut illa af sér og var sömuleiðis rekin af velli í tvær mínútur. Eyjastúlkur því óvænt orðnar þremur leikmönnum færri, á örfáum sekúndum.

Eðlilega gekk þeim afar illa að skapa sér færi á þessum tíma og einnig áttu þær í erfiðleikum með að verjast fullskipuðu liði Fram sem nýtti tækifærið og jók forskot sitt í fimm mörk. Þrátt fyrir hetjulega baráttu reyndist sá munur of mikill og endaði leikurinn með tveggja marka sigri gestanna, 18-20, eftir sextíu mínútur af undarlegum handboltaleik.

Fram gat leyft sér að fagna í leikslok.Vísir/Hulda Margrét

Af hverju vann Fram?

Leikurinn var jafn fram að því að ÍBV varð þremur leikmönnum færri og það er ekki vænlegt gegn eins ógnarsterku liði og Fram er. Einnig datt markvarsla gestanna í gang í síðari hálfleik sem gerði heimastúlkum enga greiða.

Hverjar stóðu upp úr?

Í liði ÍBV fór fyrirliðinn, Sunna Jónsdóttir, fyrir sínu liði og skoraði sjö mörk. Þær sem voru henni næstar voru með tvö mörk skoruð. Marta Wawrzynkowska átti fínan leik í marki ÍBV með fjórtán bolta varða.

Karen Knútsdóttir var langatkvæðamest í liði Fram en hún kom boltanum alls tíu sinnum í net Eyjastúlkna. Rétt eins og hjá heimaliðinu voru þær sem næstar henni voru með tvö mörk. Hafdís Renötudóttir hafði hægt um sig í marki Fram í fyrri hálfleik en vaknaði heldur betur til lífsins í þeim síðari og varði þrettán bolta.

Karen Knútsdóttir fór á kostum í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Hvað gekk illa?

Við fengum í heildina þrjátíu og átta mörk. Átján í fyrri og tuttugu í þeim síðari. Við kennum góðri vörn og markvörslu heilt yfir um þetta. Lykilmenn beggja liða náðu sér engan veginn á strik í dag og bitnaði það á tölunum.

Hvað gerist næst?

Þriðji leikur liðanna er á fimmtudaginn næstkomandi og þá er það að duga eða drepast fyrir ÍBV. Vinni Fram er einvíginu lokið en vinni ÍBV fáum við, að minnsta kosti, fjórða leikinn.

Þrjár mínútur af bíói

Sigurður var ekki ánægður að leik loknum.Vísir/Vilhelm

Sigurður Bragason, þjálfari ÍBV, sagði sitt lið hafa kastað frá sér möguleikanum á sigri. 

,,Við hendum þessum leik frá okkur, algjörlega. Þetta eru mistök hjá okkur og úr verða einhverjar þrjár mínútur af ringulreið þar sem leikurinn klárast.”

,,Við setjum eina sautján ára inn á sem misskilur skilaboðin og hleypur inn á völlinn sem þýddi vitlaus skipting. Svo er það atvinnumaður sem fer aftan í leikmann og er tæp á því að fá rautt spjald. Þarna hendum við leiknum frá okkur. Þarna eru tvö mörk á milli liðanna og allt í fínu lagi. Þessar þrjár mínútur af bíói eyðilögðu þennan annars flotta leik.”

Þriðji leikur liðanna fer fram á fimmtudaginn næstkomandi og þrátt fyrir slæma stöðu segir Sigurður sitt lið ekki af baki dottið. ,,Við gefum allt í þann leik. Það er ekki mikill munur á þessum liðum. Ég veit að það verður erfitt, en það verður þrusað á það. Það er engin spurning. Ég verð að keyra trú í stelpurnar og vonandi tekst það.”

Það getur allt gerst

Stefán Arnarson, þjálfari Fram.VÍSIR/HAG

,,Ég sagði það fyrir leik að þetta yrði erfitt,” sagði Stefán Arnarson, þjálfari Fram, að leik loknum. ,,Ég ber mikla virðingu fyrir ÍBV liðinu. Ég er ótrúlega ánægður með það að vinna hérna.”

,,Það er oft þannig í þessum einvígum þegar liðin eru farin að þekkja hvort annað vel að það er erfiðara að skora. Við spilum slaka vörn í byrjun fyrri hálfleiks áður en við lögum það.”

,,Við lentum manni færri í fyrri hálfleik og þær komast tveimur mörkum yfir. Svo í þeim síðari missa þær mann útaf áður en þær gera ranga skiptingu. Sá kafli var mikilvægur okkur og við vinnum hann. Það kom okkur á sporið. Við fórum í gamla handboltann undir lokin. Að róa leikinn og spila leiðinlega. Það er ekki gaman en það gekk upp í dag.”

Þrátt fyrir að vera tvö núll yfir í einvíginu er Stefán einbeitur á þriðja leik liðanna á fimmtudaginn. ,,ÍBV er mjög gott lið og það eru margir góðir leikmenn. Það er oft þannig þegar það er komið tvö núll og allt virkar þægilegt þá er hugarfarið oft ekki í lagi. Það getur allt gerst.”


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira