Skoðun

Blæðandi börn í boði meirihlutans!

Björn Steinbekk skrifar

Dropinn holar steininn og myglan meirihlutann er mantra sem foreldrar barna í Fossvogsskóla ættu að taka upp, svona korter í kosningar. 

 Já, það er komið að því að leiðtogi meirihlutans, Dagur B. Eggertsson kemur fram og lofar fjárfestingum í hverfum, húsnæðis sáttmála (hvað svo sem það þýðir) sundlaugum og eflaust ómygluðum skólum fyrir framtíðar íbúa borgarinnar. Okkur sem eigum börn sem þarf að keyra í rútum úr Fossvogi upp í Korpu fyrir 300.000kr á dag, fimm daga vikunnar, síðasta, þetta og eflaust allt næsta skólaár finnst auðvitað ömurlegt að þurfa horfa upp á glaðbeittan borgarstjóra á strætóskýlum í hverfinu lofandi öllu fögru eftir að hafa algjörlega brugðist börnunum í hverfinu. 

 Svo það sé ekki nógu slæmt þá eru þau sem haldið hafa Degi á hornskrifstofunni við Tjörnina jafn getulaus er kemur að úrbótum, aðgerðum, lausnum. VG vill að við löbbum meira og hjólum og séum voða næs við allt og alla. Píratar vilja eitthvað og Viðreisn er eiginlega svo upptekin af Framsóknarflokknum að það eina sem þeim dettur til hugar er að lofa lengstu göngugötu í heimi. Talandi um metnað og framsýni. 

Ég sjálfur vill einfaldlega stjórnmálakonur og menn sem hlusta og framkvæma, í stað þess að forðast, ljúga og fresta eins og og formaður skóla og frístundasviðs gerði iðulega er kom að Fossvogsskóla og hefur kostað börn heilsuna, foreldra taugarnar og borgarsjóð milljarða. Sami formaður og lofað hefur ítrekað, á fjögurra ára fresti leikskólaplássi fyrir 12 mánaða gömul börn en aldrei efnt. 

 Er ekki bara best að kjósa eitthvað annað en núverandi meirihluta?

Höfundur vinnur við markaðsmál og flýgur stundum drónum.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×