Umfjöllun og viðtöl: Þór/KA - Valur 2-1 | Norðankonur lögðu meistarana

Árni Gísli Magnússon skrifar
Sandra María Jessen skoraði fyrra mark heimakvenna.
Sandra María Jessen skoraði fyrra mark heimakvenna. Vísir/Vilhelm

Þór/KA mætti Val í Bestu deild kvenna í Boganum í kvöld. Heimakonur unnu 2-1 baráttusigur en Valskonur fengu aragrúa af færum til að ná í það minnsta jafntefli.

Leikurinn fór af stað af krafti og var komið mark í leikinn eftir einungis 6. mínútur. Ída Marín var þá með boltann inn á eigin vallarhelmingi en Tiffany McCarty hirti boltann auðveldega af henni og keyrði í átt að marki Vals og renndi boltanum til vinstri þar sem Sandra María Jessen var á ferðinni og kláraði færið vel. 1-0 fyrir heimakonur strax í upphafi.

Á 9. mínútu áttu Valskonur hornspyrnu og settu boltann inn á teiginn þar sem Andrea Mist skallaði boltann í burtu en lenti í samstuði við Örnu Sif og lágu þær báðar óvígar eftir á vellinum og héldu um höfuð sér. Andrea þurfti að fara velli vegna meiðslanna og vonum við að hún nái sér fljótt. Inn í hennar stað kom Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir.

Valskonur voru mun meira með boltann í leiknum á meðan Þór/KA reyndi að beita skyndisóknum. Eftir rúmlega 20 mínútna leik fékk Elín Metta Jensen sannkallað dauðafæri þegar það kom fyrirgjöf frá Ídu Marín og Elín var alein á móti markmanni en setti boltann fram hjá.

Lítið gerðist þangað til í uppbótartíma hálfleiksins en þá fékk Ásdís Karen boltann í teignum og snéri sér að marki og átti hörku skot sem fór í slánna. Hún var svo aftur á ferðinni stuttu seinna þar sem hún fékk boltann rétt fyrir framan Hörpu markmann í teignum sem varði frábærlega.

Í seinni hálfleik lágu heimakonur áfram vel til baka og Valskonur reyndu að komast í gegnum þykkan varnarmúrinn og Elín Metta fékk enn eitt dauðafærið eftir 7 mínútur í seinni hálfleik þegar hún snéri Huldu Björg glæsilega af sér í teignum en setti boltann fram hjá. Hún fékk svo annað gott færi nokkrum mínútum seinna sem títtnefnd Harpa varði vel í markinu.

Það kom svo loks að því að Elín Metta jafnaði leikinn á 64. mínútu. Valskonur áttu þá horn og eftir það barst boltinn aftur inn í teiginn og eftir smá klafs endaði boltinn hjá Elínu Mettu sem skaut í Huldu Karen og þaðan fór boltinn inn af stuttu færi. Valskonur búnar að jafna og fóru í leit að sigri.

Leikmenn Þór/KA voru hins vegar ekki hættar og á 75. mínútu komust þær aftur yfir. Tiffany McCarty var þá með boltann inn á vallarhelmingi Vals og setti boltann inn fyrir á Margréti Árnadóttur sem var komin í gegn en Sandra varði frá henni en boltinn fell aftur fyrir fætur Margrétar sem fór aðeins til hægri og setti svo boltann í markið.

Síðasta stundarfjórðunginn sóttu Valskonur látlaust í leit að jöfnunarmarki og fengu þær Ásdís Karen, Þórdís Hrönn og Anna Rakel allar góð færi til að jafna en Harpa Jóhannsdóttir var búin að skella algjörlega í lás og varði allt sem kom á markið og greip oft vel inn í.

Þór/KA vann því frábæran 2-1 sigur og fögnuðu vel í leikslok.

Af hverju vann Þór/KA?

Baráttugleði leikmanna Þór/KA var rosaleg í dag og unnu þær hver fyrir aðra eins og ekkert væri sjálfsagaðara. Þær vildu liggja til baka og sækja hratt og það tókst svo sannarlega. Þær nýttu svo þau fáu færi sem komu sem þarf að gera í svona leik.

Hverjar stóðu upp úr?

Harpa Jóhannsdóttir var maður leiksins en hún varði fjölmörg dauðafæri í dag, greip vel inn í og var örugg í öllum sínum aðgerðum. Þær Hulda Karen, Hulda Björg og Iðunn Rán mynduðu þriggja hafsenta kerfi og voru allar mjög góðar í dag.

Hvað gekk illa?

Það gekk illa hjá Val að nýta færin sín eins og hefur margoft komið fram.

Hvað gerist næst?

Þór/KA fer í Mosfellsbæinn og mætir Aftureldingu sunnudaginn 8. maí kl. 14.00.

Valur fær Keflavík í heimsókn mánudaginn 9. maí kl. 19:15.

Harpa: Þetta var bara liðsframmistaða frá A til Ö

Harpa Jóhannsdóttir átti frábæran leik í marki Þórs/KA.KSÍ

Harpa Jóhannsdóttir, markmaður Þór/KA átti stórleik þegar lið hennar lagði Val að velli í Boganum í kvöld, 2-1, og var hún kampakát í leikslok.

Hvernig líður manni eftir svona frammistöðu?

„Bara ótrúlega vel, ég er ótrúlega ánægð með liðið, þetta var bara liðsframmistaða frá A til Ö og við ætluðum að koma hérna og sýna að við værum búnar að missa skrekkinn frá því síðast og værum klárar í þetta mót.”

Valskonur hefði hæglega getað skorað fimm mörk í kvöld en Harpa varði hvert dauðafærið á fætur öðru og kom í veg fyrir að mörk Vals yrðu fleiri en eitt.

„Ég er með ótrúlega sterka vörn fyrir framan mig og ef það er traust á milli okkar þá bara vinnum við saman í þessu.”

Þór/KA spilar í þriggja hafsenta kerfi með vængbakverði og segist Harpa finna sig vel með vörnina í þessu kerfi.

„Mér finnst það bara nokkuð fínt, við erum búnar að æfa þetta vel í vetur og mér finnst þetta lítið öðruvísi en fjögurra manna þannig ég er bara mjög ánægð með þetta.”

Þór/KA tapaði fyrsta leik tímabilsins illa gegn Breiðabliki, 4-1, og voru að sögn Hörpu staðráðnar í að gera miklu betur í dag.

„Mér fannst við vera svolítið stressaðar í fyrtsa leik eða sérstaklega fyrri hálfleik en skrekkurinn er farinn og við erum komnar hérna heim í Bogann og okkur líður vel hér.”

En ætlar liðið ekki að spila á Þórsvellinum fljótlega?

„Jú ætli það ekki ef það hættir að snjóa”, sagði Harpa en snjó kyngdi niður á Akureyri síðastliðna nótt og áfram í nær allan dag.

Þór/KA lá mjög aftarlega á vellinum og segir Harpa þetta skemmtilegan leik fyrir markmann, sérstkalega þegar liðið fær öll þrjú stigin.

„Bara að ná inn markinu, bjuggumst kannski ekki við því að ná því svona snemma og þá kannski duttum við aðeins aftar en við ætluðum okkur en við erum með hraða frammi þannig allt í lagi að bíða aðeins”, sagði Harpa að lokum.

Pétur: Hrós á Þór/KA hvað þær börðust vel

Pétur Pétursson, þjálfari Vals.Vísir/Vilhelm

Pétur Pétursson, þjálfari Vals, segir að lið sitt þurfa að bæta mikið eftir tap gegn Þór/KA.

„Mér fannst þetta bara vel gert hjá Þór/KA og þær eiga mikið hrós skilið og við nýttum svo sem eiginlega ekkert af þessum færum sem við fengum allan leikinn en þegar uppi var staðið stóðum við okkur ekki nógu vel.”

Valsliðið komst oft í mjög góð færi í leiknum en nýttu þau ekki sem er dýrkeypt í leik eins og þessum.

„Það er nú oft í fótbolta að ef þú nýtir ekki færin þín þá færðu það í bakið á þér en samt sem áður fannst mér við ekki standa okkur nógu vel.”

Þór/KA lá mjög neðarlega á vellinum í dag. Kom það Pétri á óvart hversu neðarlega liðið var?

„Nei í rauninni ekki, maður bjóst alveg við því að þetta yrði svona leikur, þetta er ekkert nýtt en maður bjóst við að þessi leikur gæti orðið svona en eins og ég segi samt hrós á Þór/KA hvað þær börðust vel og áttu þetta skilið þegar uppi var staðið.”

Pétur var að lokum spurður hvað liðið þyrfti að bæta fyrir næsta leik og svarið var sutt:

„Nánast allt”.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira