Erlent

Vaktin: Sagði Úkraínumenn gera Rússa að fíflum

Hólmfríður Gísladóttir, Bjarki Sigurðsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Joe Biden í verksmiðju Lockheed Martin í Alabama í kvöld.
Joe Biden í verksmiðju Lockheed Martin í Alabama í kvöld. AP/Evan Vucci

Frans páfi segist ekki hafa í hyggju að heimsækja Kænugarð en hann sé viljugur til að hitta Vladimir Pútín Rússlandsforseta. Þetta sagði hann í viðtali við dagblaðið Corriere della Sera, þar sem hann líkti átökunum í Úkraínu við þjóðarmorðið í Rúanda.

Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu í allan dag.

Helstu vendingar:

  • Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, heiðraði í dag starfsmenn vopnaverksmiðju í Bandaríkjunum þar sem svokallaðar Javelin-eldflaugar eru framleiddar. Hann sagði Úkraínumenn nota þær til að gera Rússa að fíflum.
  • Rússar gerðu í kvöld umfangsmiklar eldflaugaárásir á innviði Úkraínu. Talið er að mögulega sé um umfangsmestu eldflaugaárásir stríðsins að ræða.
  • Rafmagnslaust er í Lviv og víðar og er lestarkerfi Úkaínu sagt hafa orðið fyrir töluverðum skemmdum. Eldflaugum var skotið á minnst sex lestarstöðvar í landinu.
  • Boris Johnson, forsætisráðherra  Bretlands, mun ávarpa úkraínska þingið í dag.
  • Talið er að um 200 almennir borgarar séu enn fastir í Azovstal-verksmiðjunni. Rússar hófu árásir á verksmiðjuna strax og björgunaraðgerðum Sameinuðu þjóðanna lauk í gær.
  • Bandaríkjamenn segja Rússa hyggjast innlima Donbas, það er að segja héruðin Donetsk og Luhansk, með fölsuðum kosningum.
  • Evrópusambandið undirbýr nú refsiaðgerðir sem munu meðal annars felast í banni á kaupum á olíu frá Rússlandi. Þjóðverjar segjast styðja slíkar aðgerðir en Ungverjar og Slóvakar munu mögulega fá undanþágu.
  • Breska varnarmálaráðuneytið segir innrás Rússa í Úkraínu hafa veikt rússneska heraflann til muna og vegna refsiaðgerða bandamanna muni taka langan tíma fyrir hann að ná sér.
  • Ísraelar eru enn æfir yfir staðhæfingu Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, að Adolf Hitler hafi verið með „gyðinga-blóð“ í æðum. Jerusalem Post segir þetta þýða að stjórnvöld í Ísrael geti ekki lengur verið hlutlaus gagnvart átökunum í Úkraínu.

Hér má finna vakt gærdagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×