Innlent

Ráðu­neytið keypti ráð­gjöf án út­boðs en Banka­sýslan fór eftir reglum

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Blaðið fékk ekki svör frá fjármálaráðuneytinu við spurningum um af hverju reglum um útboð var ekki fylgt.
Blaðið fékk ekki svör frá fjármálaráðuneytinu við spurningum um af hverju reglum um útboð var ekki fylgt. Vísir/Vilhelm

Bæði Bankasýsla ríkisins og fjármálaráðuneytið nýttu sér utanaðkomandi sérfræðiráðgjöf í tengslum við söluna á hlutum ríkisins í Íslandsbanka.

Fréttablaðið greinir frá þessu í dag og bendir á að fjármálaráðuneytið hafi ekki fylgt eigin reglum í slíkum málum og keypt þjónustuna að undangengnu útboði. Í blaðinu er fullyrt að kostnaður við þetta hafi verið 62 milljónir.

Í reglum ráðuneytisins segir að öll innkaup á vöru og þjónustu sem fara yfir 18,5 milljónir skuli fara í útboð. Ráðuneytið borgaði hins vegar, að sögn blaðsins, fyrirtæki bresks sérfræðings 22,4 milljónir króna fyrir ráðgjöf í tengslum við söluna á bankanum án þess að bjóða þjónustuna út fyrst.

Bankasýslan greiddi síðan öðru fyrirtæki um 40 milljónir króna fyrir ráðgjöf í málinu, en í því tilfelli var hins vegar farið eftir settum reglum og samið um þjónustuna að undangengnu útboði.

Ekki fengust svör frá fjármálaráðuneytinu af hverju reglum um útboð var ekki fylgt, segir að lokum í Fréttablaðinu.

Uppfært klukkan 10:29

Fjármálaráðuneytið hafnar því alfarið að hafa ekki fylgt reglum við ráðgjafakaup. Kaup opinberra aðila á fjármálaþjónustu í tengslum við útgáfu, sölu, kaup eða aðilaskipti að verðbréfum eða öðrum sambærilegum fjármálagerningum falli ekki undir útboðsskyldu.

Nánar hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×