Handbolti

Aldís Ásta gerði eins og Guðjón Valur um árið: Magnað mark beint úr aukakasti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aldís Ásta Heimisdóttir var hetja KA/Þórs liðsins um helgina.
Aldís Ásta Heimisdóttir var hetja KA/Þórs liðsins um helgina. Vísir/Hulda Margrét

Aldís Ásta Heimisdóttir tryggði KA/Þór sæti í undanúrslitum Olís deildar kvenna í handbolta með ótrúlegu marki beint úr aukakasti þegar leiktíminn var liðinn í öðrum leik KA/Þórs og Hauka.

KA/Þór vann báða leikina í einvíginu og mætir því Val í undanúrslitunum en Haukastelpurnar eru komnar í sumarfrí.

Aldís Ásta lék þarna eftir þekkt afrek Guðjóns Vals Sigurðssonar sem tryggði KA aðra framlengingu í oddaleik á móti Aftureldingu í undanúrslitunum 2001. KA vann leikinn síðan í annarri framlengingunni.

Skapti Hallgrímsson á Akureyri.net rifjaði upp þetta fræga mark Guðjóns Vals en hann náði flottum myndum af markinu eins og sjá má hér.

Aldís Ásta var í þröngri stöðu enda aukakastið út við hliðarlínu en henni tókst að finna gat í varnarveggnum og skora með þrumuskoti. Það tók hana smá tíma að átta sig að boltinn hefði farið inn en svo tók við mikill fögnuður hjá henni og liðsfélögum hennar í KA/Þór.

Aldís Ásta átti sannkallaðan stórleik á Ásvöllum því þetta var hennar sjöunda mark í leiknum og þá átti hún einnig tíu stoðsendingar á liðsfélaga sína.

Hér fyrir neðan má sjá þetta magnaða sigurmark hjá Aldísi Ástu.

Klippa: Sigurmark beint úr aukakasti



Fleiri fréttir

Sjá meira


×