Skoðun

Við erum búin að borga, hvar eru innviðirnir okkar?

Hjördís Guðmundsdóttir skrifar

Þegar uppbygging Urriðaholts hófst var gerður samningur þess efnis að íbúar hverfisins tækju beinan þátt í uppbyggingu innviða með sérstöku innviðagjaldi. Gjald sem var lagt á íbúa umfram hefðbundin innviðagjöld á við gatnagerðargjöld. Upphæðin sem íbúar eiga í sérstökum innviðasjóði eru rétt tæpir 2 milljarðar.

Þolinmæðin er á þrotum

2000 milljónir sem íbúar í Urriðaholti greiddu sérstaklega úr eigin vasa til að fá skóla, íþróttahús og sundlaug í hverfið sitt strax. Samhliða annarri uppbyggingu hverfisins. Hvar eru þessi mannvirki?

Nú er hverfið að mestu uppbyggt en enn bíða íbúar eftir innviðunum sem þeim var lofað strax frá upphafi. Fyrsti fasi skólabyggingar er hálfnaður og stendur til að hefja seinni hluta fyrsta fasa nú á næstu misserum. Skólinn er sprunginn, unglingadeildin getur ekki farið af stað í haust með góðu móti og skólaeldhúsið fer í gáma sem nú er búið að koma fyrir við horn skólahúsnæðisins.

Íþróttamannvirki, almenningssundlaug

Íþróttir stunda nemendur utandyra fyrst á morgnana - það er að segja þegar veður leyfir. Smá gola breytist fljótt í gula, appelsínugula eða rauða viðvörun í kringum Urriðaholtsskóla og þá er engum út sigandi og börnin þurfa fylgd inn í og úr skólanum.

Það er skýlaus krafa íbúa að vandað sé til verka og uppbygging þjóni þörfum ört vaxandi hverfis og þörfum allra íbúa á þjónustu í nærumhverfi. Sagði einhver almenningslaug? Já hana viljum við íbúar og hennar krefjumst við og munum við i Framsókn berjast fyrir því að lítil kennslulaug sem vart annar skólasundi allra árganga verði teiknuð upp sem hverfislaug lýðheilsu allra okkar íbúa til heilla.

Framsókn í innviðauppbyggingu!

Íbúar Urriðaholts gera þá réttlátu kröfu að bærinn standi við gefin loforð og flýti fyrir uppbyggingu nauðsynlegra innviða svo samfélagið í Urriðaholti fái tíma og rúm til að mótast og eflast sem best skyldi.

Það leggjum við í Framsókn áherslu á og munum berjast fyrir.

Setjum X við B þann 14. maí fyrir Framsókn í Garðabæ!

Höfundur er grunnskólakennari, íbúi í Urriðaholti og skipar 5. sæti á lista Framsóknar í Garðabæ.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×