Innlent

Bjarni kannast ekki við full­yrðingar Lilju um á­hyggju­fulla ráð­herra

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Bjarni mætti á opinn fund fjárlaganefndar í morgun þar sem hann svaraði ýmsum spurningum nefndarmanna um söluferlið á hlut ríkisins í Íslandsbanka.
Bjarni mætti á opinn fund fjárlaganefndar í morgun þar sem hann svaraði ýmsum spurningum nefndarmanna um söluferlið á hlut ríkisins í Íslandsbanka. vísir/vilhelm

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, segir lýsingu Lilju Al­freðs­dóttur, menningar- og við­skipta­ráð­herra, á við­horfi sínu til út­boðs á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Ís­lands­banka í að­draganda þess ekki rétta. Hann hafi ekki haft neinar efa­semdir um ferlið.

Lilja sagði í ó­undir­búnum fyrir­spurna­tíma á Al­þingi í gær að bæði Bjarni og Katrín Jakobs­dóttir for­sætis­ráð­herra hefðu deilt með henni þeim á­hyggjum og efa­semdum sem hún hafði um að­ferðina við söluna.

Ráð­herrarnir þrír sitja saman í ráð­herra­nefnd um efna­hags­mál og fóru á fundum yfir ferlið.

Á opnum fundi fjár­mála­nefndar í morgun sat Bjarni fyrir svörum og var hann spurður út í þessi orð Lilju.

„Ég kannast ekki við að hafa verið með miklar efa­semdir í nefndinni og ég tel ekki að það sé lýsandi fyrir um­ræðu í ráð­herra­nefnd að þar hafi ráð­herrar verið með miklar efa­semdir um að fram­kvæma út­boðið,“ sagði Bjarni.

„Þvert á móti þá er ég þeirrar skoðunar að þar hafi farið fram gagn­leg um­ræða um kosti og galla þeirra val­kosta sem við stóðum frammi fyrir.“

Lilja hafi óttast viðbrögð almennings

Þor­björg Sig­ríður Gunn­laugs­dóttir, nefndar­maður Við­reisnar í fjár­laga­nefnd sem spurði Bjarna um orð Lilju, fylgdi spurningu sinni þá eftir eftir þetta svar Bjarnar og spurði hvort það væri þá ein­fald­lega rangt sem Lilja hefði sagt í þinginu í gær.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir situr í fjárlaganefnd fyrir hönd Viðreisnar.vísir/arnar

Bjarni sagðist þá telja að fólk væri að mistúlka orð Lilju. Hún hefði haft pólitískar á­hyggjur af málinu og því hvort að­ferðin sem yrði farin með út­boðinu yrði vin­sæl.

„Ég held að þarna sé verið að virða pólitískar á­hyggjur, ekki laga­legar á­hyggjur, heldur pólitískar á­hyggjur af því hvernig menn geti við­haldið góðum stuðningi meðal þjóðarinnar eftir því hvaða leið er farin. Og kannski er það sem ráð­herrann er að vísa til að það hefur skapast mikið upp­nám og mold­viðri út af þessari fram­kvæmd – að það hafi ræst sem hún hafði á­hyggjur af að það væri erfiðara að við­halda pólitískum stuðningi þegar allur ís­lenskur al­menningur ætti ekki aðild að fram­kvæmd út­boðsins,“ sagði Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×