Erlent

Vaktin: Kallar Rússa hug­mynda­fræði­lega arf­taka nas­ista

Hólmfríður Gísladóttir, Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir og Árni Sæberg skrifa
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði þjóð sína í kvöld og kallaði Rússa hugmyndafræðilega arftaka nasista.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði þjóð sína í kvöld og kallaði Rússa hugmyndafræðilega arftaka nasista. AP/Forsetaembætti Úkraínu

Stjórnvöld í Úkraínu halda áfram að fordæma harðlega tímasetningu árásar Rússa á Kænugarð en tvö flugskeyti hæfðu borgina í gær, á meðan framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna var staddur þar í heimsókn.

Fréttastofa Vísis, Stöðvar 2 og Bylgjunnar fylgist með þróun mála í Úkraínu.

Helstu vendingar:

  • Vólódímír Selenskí Úkraínuforseti segir árásina í gær endurspegla viðhorf Rússa til alþjóðasamfélagsins. Hún kalli á hörð viðbrögð.
  • António Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, harmaði á blaðamannafundi í gær að öryggisráði SÞ hefði ekki gert allt sem í sínu valdi stóð til að koma í veg fyrir og binda enda á átökin í Úkraínu. Þetta séu vonbrigði og afar ergilegt.
  • Breska varnarmálaráðuneytið segir Rússa fara hægt í sókn sinni í Donbas og segir þann árangur sem þeir hafi náð hafa haft umtalsverðan fórnarkostnað í för með sér vegna harðrar mótspyrnu Úkraínumanna. Breska leyniþjónustan segir Rússa gjalda fyrir hvern kílómeter sem þeir nái á sitt vald í Donbas.
  • Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, hefur varað við því að stríðið í Úkraínu kunni að vara í marga mánuði eða ár. Bandalagið sé reiðubúið til að styðja við Úkraínumenn til lengri tíma og endurnýja vopnabúr þeirra.
  • Alþjóðakjarnorkumálastofnunin rannsakar nú hvort flugskeyti var skotið beint yfir kjarnorkuver nærri borginni Yuzhnoukrainsk hinn 16. apríl síðastliðinn. Framkvæmdastjóri stofnunarinnar segir málið afar alvarlegt ef rétt reynist.
  • Eftirliti Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í Úkraínu verður hætt eftir að Rússar beittu neitunarvaldi til að koma í veg fyrir að það yrði framlengt.
  • Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, segir að eftir mistök Nató við að hleypa Úkraínu ekki inn í bandalagið eigi Úkraínumenn það inni að aðildarríkin skoði með hvaða hætti þau geta tryggt öryggi landsins til framtíðar.
  • Rússar hafa viðurkennt að þeir hafi framið eldflaugaárás á Kænugarð í gær, á sama tíma og António Guterres var staddur í borginni. Talsmaður varnarmálaráðuneytis Rússands segir í samtali við rússnesku fréttaveituna Interfax að markmiðið hafi verið að granda verksmiðju, sem Rússar segja framleiða eldflaugar. 

Hér má finna vakt gærdagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×