Innlent

844 frá Úkraínu sótt um al­þjóð­lega vernd

Eiður Þór Árnason skrifar
Fyrstu flóttamennirnir sem komu hingað frá Úkraínu eftir að stríðið hófst lentu í lok febrúar.
Fyrstu flóttamennirnir sem komu hingað frá Úkraínu eftir að stríðið hófst lentu í lok febrúar. Vísir/vilhelm

Alls hafa 844 einstaklingar með tengsl við Úkraínu sótt um alþjóðlega vernd hér á landi frá því að stríðið hófst í landinu þann 24. febrúar. Hópurinn skiptist í 449 konur, 234 börn og 161 karl.

Síðastliðna viku hafa 50 sótt um vernd eða að meðaltali sjö einstaklingar á dag. Ef sjö daga meðaltal er notað sem forspárgildi má gera ráð fyrir að um 200 til viðbótar sækist eftir vernd á næstu fjórum vikum. Þetta kemur fram í nýrri stöðuskýrslu landamærasviðs ríkislögreglustjóra.

Samtals hafa 1.292 einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi frá áramótum. Fjölmennasta þjóðernið voru einstaklingar með tengsl við Úkraínu en þar á eftir eru 260 einstaklingar með tengsl við Venesúela. Umsækjendur um alþjóðlega vernd frá áramótum skiptust á alls 33 ríkisföng.

Met slegið í fjölda umsókna

Í gær höfðu samtals 5.123.505 einstaklingarflúið stríðsátökin í Úkraínu til nágrannaríkja í Evrópu. Flestir hafa komið til Póllands eða 2.933.753 einstaklingar. Gert er ráð fyrir því að fjöldi þeirra sem flýi stríðsátökin muni halda áfram aukast.

Alþjóðaflóttamannastofnunin áætlar nú að allt að 5 milljónir einstaklinga muni flýja en stofnunin hafði áður áætlað að sá fjöldi yrði nálægt 4 milljónum. Þá segir stofnunin að 7,1 milljónir óbreyttra borgara séu á flótta innan landamæra Úkraínu.

Þann 11. apríl var met slegið í heildarfjölda umsókna um alþjóðlega vernd á Íslandi en aldrei áður hafa jafn margar umsóknir borist á einu ári, að sögn landamærasviðs ríkislögreglustjóra.


Tengdar fréttir

791 Úkraínu­maður komið til landsins og við­búið að þeim fjölgi

Alls hefur 791 úkraínskur flóttamaður komið til Íslands og sótt um vernd frá því innrás Rússa hófst þann 24. febrúar síðastliðinn. Um er að ræða 434 konur, 202 börn og 155 karla. Tæplega 4,9 milljón manns hafa flúið Úkraínu frá því að innrásin hófst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×