Innlent

Opnum fundi fjár­laga­­nefndar um banka­­söluna frestað á síðustu stundu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Ástæða frestunarinnar er sögð vera að minnisblað sem hafi verið óskað eftir frá Bankasýslunni væri ekki tilbúið.
Ástæða frestunarinnar er sögð vera að minnisblað sem hafi verið óskað eftir frá Bankasýslunni væri ekki tilbúið. Vísir/Vilhelm

Opnum fundi fjárlaganefndar Alþingis sem halda átti í dag hefur verið frestað. Á fundinum stóð til að ræða hina umdeildu sölu ríkisins á hlutum í Íslandsbanka og höfðu fulltrúar Bankasýslu ríkisins verið kallaðir fyrir nefndina.

Seint í gærkvöldi birtist síðan tilkynning á heimasíðu Alþingis þar sem segir að fundinum hafi verið frestað fram á miðvikudag að beiðni Bankasýslunnar og hefst hann klukkan níu.

Í Morgunblaðinu í morgun segir að ástæða frestunarinnar hafi verið sú að minnisblað sem óskað hafði verið eftir frá Bankasýslunni sé ekki tilbúið.

Bryndís Haraldsdóttir, nefndarmaður í fjárlaganefnd og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir miður að minnisblaðinu hafi ekki verið skilað í tæka tíð og segist hún mjög hissa á framgöngu Bankasýslunnar sem sé óásættanleg með öllu.

Bryndís Haraldsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins á sæti í nefndinni.Vísir/Vilhelm

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, og Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, eru meðal þeirra sem hafa gagnrýnt frestun fundarins.

Harðorðir þingmenn

Þorbjörg Sigríður er harðorð í gagn Bankasýslunnar í færslu á Facebook-síðu sinni og segir að það sé ekkert annað en ævintýraleg vanvirðing við fólk í landinu og eftirlitshlutverk þingsins að afboða sig á fundinn. „Algjörlega óþolandi vinnubrögð.“

Björn Leví er sömuleiðis allt annað en sáttur. „Einhver fyrirsláttur um að skýrsla sem þau eru búin að hafa rúman tíma til að klára sé ekki tilbúin og verði ekki tilbúin fyrr en á þriðjudaginn. Frestast til miðvikudags ... og dýrmætum tíma þingsins sóað.“


Tengdar fréttir

Hrakfallasaga Íslandsbanka frá hruni til útboðs

Gríðarleg gagnrýni hefur komið fram á sölu ríkisins á Íslandsbanka til svokallaðra hæfra fjárfesta í síðasta mánuði. En um hvað er deilt og hvað gerðis? Við ætlum að fara yfir helstu atriði málsins hér á eftir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×