Handbolti

Björgvin gaf í skyn að leikmenn Fram skytu viljandi í höfuðið á sér

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Björgvin Páll Gústavsson var ekki ánægður með leikmenn Fram.
Björgvin Páll Gústavsson var ekki ánægður með leikmenn Fram. vísir/Hulda Margrét

Þrátt fyrir tíu marka sigur á Fram, 34-24, í átta liða úrslitum Olís-deildar karla í handbolta í gær var Björgvin Páll Gústavsson, markvörður Vals, ekki sáttur í leikslok. Honum fannst leikmenn Fram gera í því að skjóta boltanum nálægt höfði sínu.

Björgvin þurfti að hvíla eftir að hafa fengið skot í höfuðið á æfingu fyrr í þessum mánuði. Honum fannst leikmenn Fram skjóta full nálægt eða hreinlega viljandi í höfuð sitt í leiknum í gær. 

„Ég átti von á að þeir myndu berja okk­ur í and­litið og ég átti von á því að þeir fengju rautt spjald. Ég átti von á því að fá bolt­ann yfir haus­inn og í haus­inn. Þetta er það sama og gerðist í síðasta leik og það eru skýr skila­boð. Þeir ætla að fara þannig út,“ sagði Björgvin við mbl.is eftir leikinn á Hlíðarenda í gær.

„Annaðhvort gera þeir þetta vilj­andi eða eru svona lé­leg­ir. Ég veit þeir eru góðir hand­bolta­menn, svo það hlýt­ur að vera það fyrra. Ég er bú­inn að fá fjög­ur skot í haus­inn frá þeim í tveim­ur leikj­um. Þeir vita að ég fékk skot í haus­inn um dag­inn og það er um að gera að keyra á það þá. Þetta er mjög skyn­sam­legt hjá þeim. Það eru skýr skila­boð að skjóta yfir haus­inn á mér eða í haus­inn á mér. Þeir verða að svara fyr­ir það.“

Einar Jónsson, þjálfari Fram, gaf lítið fyrir þessi ummæli Björgvins þegar hann var inntur eftir viðbrögðum við þeim. „Ég ætla ekki að svara svona bulli,“ sagði Ein­ar einfaldlega við mbl.is.

Björgvin átti góðan leik fyrir Val í gær og varði tólf skot, þar af tvö vítaköst. Hann var með 38 prósent hlutfallsmarkvörslu.

Fram og Valur mætast öðru sinni í Safamýrinni á sunnudaginn. Með sigri þar komast Valsmenn í undanúrslit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×