Innlent

Þykir leitt að sak­laus drengur hafi dregist inn í að­gerðir lög­reglu

Eiður Þór Árnason skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri. Vísir/Egill

Embætti ríkislögreglustjóra þykir leitt að drengur, sem hafði ekkert unnið sér til sakar, hafi dregist inn í aðgerðir lögreglu í tengslum við leitina að Gabríel Douane Boama.

Greint var frá því fyrr í kvöld að lögreglu hafi borist ábending um að Gabríel væri að finna um borð í strætisvagni í Reykjavík. Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út til aðstoða við aðgerðina og var för vagnsins stöðvuð. Þegar sérsveitarmenn fóru um borð í strætisvagninn kom strax í ljós að ekki var um Gabríel að ræða og yfirgáfu þeir því vagninn.

Í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra segir að í kjölfarið hafi móðir drengsins í vagninum haft samband og lýst yfir áhyggjum af þeirri stöðu sem upp væri komin, þar sem ungmenni í minnihlutahópi óttist að vera tekin í misgripum vegna útlits.

Sömuleiðis hefur tónlistarmaðurinn Logi Pedro Stefánsson harðlega gagnrýnt framferði lögreglu í málinu.

„Það er óásættanleg sturlun að vopnuð sérsveit fari í aðgerðir og fjarlægi 16 ára barn, einungis af því að það er með sömu klippingu og eftirlýstur einstaklingur,“ segir hann í Facebook-færslu.

Logi Pedro Stefánsson tónlistarmaður og útgefandi.Vísir/vilhelm

Logi Pedro segir aðferðirnar sem lögreglan noti til að lýsa eftir eftirlýstum einstaklingum brotnar og geti greinilega sett mikið af Íslendingum með erlendan bakgrunn í hættulegar aðstæður. Atburðarásin kalli á verklagsbreytingar, afsökunarbeiðni frá lögreglunni og viðbrögð frá æðstu ráðamönnum þjóðarinnar.

„Allir hlutirnir sem hefðu getað farið úrskeiðis í þessari vitleysu gera mann svo öskrandi reiðan. Við eigum ALDREI að sætta okkur við þessa atburðarás.“

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir að bílstjóri umrædds strætisvagns telji að sérsveitin hafi gert þetta fagmannlega án alls æsings eða láta.

Allt hafi þetta gengið yfir á örskömmum tíma. Sérsveitarmenn hafi stöðvað bílstjórann, farið inn í vagninn og skömmu síðar snúið við og farið út.

Fordómar eigi aldrei rétt á sér

Gabríel strauk frá lögreglu í gær og er að sögn hennar talinn vera hættulegur. Embætti ríkislögreglustjóra hvetur fólk til varkárni í samskiptum um málið og önnur sem tengist minnihlutahópum.

„Fordómar eiga aldrei rétt á sér. Leit að hættulegu fólki má ekki verða til þess að minnihlutahópar í okkar samfélagi upplifi óöryggi eða ótta við að samferðafólk þeirra tilkynni það til lögreglu án tilefnis,“ segir í tilkynningu.

Jafnframt kemur fram að fordómafullar athugasemdir um málið verði áfram fjarlægðar af miðlum lögreglunnar og lokað verði fyrir frekari athugasemdir. Ábendingar sem tengist málinu skuli eftir sem áður berast lögreglunni í síma 112.


Tengdar fréttir

Páll skorar á strokufangann að gefa sig fram

Páll Winkel forstjóri Fangelsismálastofnunar og sálfræðingar stofnunar hafa þungar áhyggjur af því hverjar afleiðingar stroks ungs fanga geti orðið og biðla til hans að gefa sig fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×