Handbolti

„Að sigla þessu svona örugglega finnst mér sýna mikið styrkleikamerki “

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Aron að skora eitt af sjö mörkum sínum í dag
Aron að skora eitt af sjö mörkum sínum í dag

Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska karlalandsliðsins í handbolta, var gríðarlega sáttur eftir 8 marka sigur, 34-26, á Austurríki í dag. Með sigrinum er Ísland búið að tryggja sér sæti á HM í handbolta sem fer fram í janúar. 

„Þetta var solid frammistaða, sérstaklega í dag. Spennustigið var hátt uppi hjá okkur í byrjun en mjög solid leikur í dag. Pínu sjálfstýring í seinni en samt góð frammistaða frá öllum,“ sagði Aron í leikslok.

Jafnræði var með liðunum fyrsta stundarfjórðungin og fékk Ísland nokkur tækifæri til þess að koma sér yfir en boltinn virtist ekki ætla að rata inn. Góð frammistaða undir lok fyrri hálfleiksins og út allan seinni hálfleikinn skilaði þessum sigri. 

„Ætli það sé ekki ástæðan eins og ég segi á fyrsta korterinu var hátt spennustig. Það er ógeðslega gaman að vera komnir til landsins og spila fyrir framan fullt hús. Það jafnast ekkert á við það.“

Aron var frábær í leiknum í dag og skoraði fyrstu þrjú mörk Íslands og endaði með sjö mörk úr sjö skotum. 

„Maður var vel stilltur og vel gíraður og líka að fá ágætis opnanir. Þá tekur maður sénsana, maður fer ekki að missa af þeim.“

Aron segir að þessi sigur hafi sýnt mikið styrkleikamerki og ætla strákarnir að mæta klárir á HM í janúar.

„Þetta lið var á EM, þetta er gott handbolta lið í handboltaheiminum. Að sigla þessu svona örugglega finnst mér sýna mikið styrkleikamerki hjá okkur en við ætlum að taka næsta skef og halda áfram. Við viljum bæta okkur með hverjum verkefninu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×