Innherji

Miklar hækkanir á álverði skilar Norðuráli hagnaði upp á tíu milljarða

Hörður Ægisson skrifar
Faraldurinn hefur haft veruleg áhrif til hækkunar á álverði á heimsmörkuðum og hefur hækkað um liðlega 100 prósent frá því um vorið 2020.
Faraldurinn hefur haft veruleg áhrif til hækkunar á álverði á heimsmörkuðum og hefur hækkað um liðlega 100 prósent frá því um vorið 2020. Vísir

Miklar verðhækkanir á álverði á heimsmarkaði skiluðu sér í því að tekjur Norðuráls á Grundartanga jukust um 39 prósent á árinu 2021 og námu samtals 791 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 103 milljarða króna. Mikil umskipti voru í afkomu álversins sem hagnaðist um 79,4 milljónir dala eftir skatta borið saman við tap upp á tæplega 9 milljónir dala á árinu 2020.

Þetta má lesa út úr nýbirtum ársreikningi Norðuráls á Grundartanga, sem er í eigu bandaríska félagsins Century Aluminium, en verð á áli var að meðaltali um 45 prósent hærra á liðnu ári miðað við árið 2020 og var 2.480 dalir per tonn. Faraldurinn hefur haft veruleg áhrif til hækkunar á álverði á heimsmörkuðum, rétt eins og með margar aðrar hrávörur, og stendur það núna í um 3.300 dölum á tonnið og hefur hækkað um liðlega 100 prósent frá því um vorið 2020.

Fram kemur í skýrslu stjórnar Norðuráls að framleiðsla álversins hafi verið rúmlega 315 þúsund tonn og var hún um 2.500 tonnum meiri en á fyrra ári. Meðalfjöldi starfsfólks jókst um 20 á árinu 2021 og var 576.

Greint er frá því að í lok árs 2021 hafi félagið keypt 100 prósenta hlut í Century Vlissingen Aluminium fyrir tæplega 74 milljónir dala. Er fyrirtækið sagt vera mikilvægur hluti af aðfangakeðju Norðuráls og veitir því um 95 til 98 prósent af rafskautaþörf fyrir árlega álframleiðslu þess.

Bókfært eigið fé Norðuráls á Grundartanga var um 801 milljónir dala í árslok 2021 og hækkaði það um 433 milljónir dala á milli ára. Sú hækkun skýrist einkum vegna endurmats á virði varanlegra rekstrarfjármuna upp á 462 milljónir dala eftir að félagið breytti um reikningsskilaaðferð á síðasta ári. Varanlegir rekstrarfjármunir álversins eru eftir þá hækkun metnir á 837 milljónir dala en fram kemur í reikningnum að það verðmat sé háð mati stjórnenda félagsins á undirliggjandi rekstrarvirði næstu árin.

Rekstrarhagnaður Norðuráls fyrir fjármagnsliði og afskriftir hækkaði um 39 milljónir dala á síðasta ári og var samtals tæplega 95 milljónir dala. Hagnaður félagsins vegna framvirkra samninga sem félagið hefur gert tengt verðbreytingum á Nord Pool orkumarkaðnum miðað við álverð var rúmlega 41 milljónir dala miðað við tap á slíkum samningum upp á 29 milljónir dala á árinu 2020.

Norðurál á Grundartanga hefur gert raforkusamninga um kaup á 546 megawöttum af orku fyrir álverið við HS Orku, Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur. Í ársreikningnum kemur fram að samningarnir séu með mismunandi gildistíma, frá lok árs 2026 og út árið 2036, með möguleika á framlengingu. Fyrir árið 2022 var 67 prósent af orkusamningunum með álverðstengingu, 29 prósent með tengingu við verð á Nord Pool orkumarkaðnum og 4 prósent byggt á föstum verðum.

Í nóvember í fyrra gerði álverðið átta ára lánasamning við Arion banka um lántöku upp á allt að 130 milljónir dala vegna fjármögnunar á byggingu boltasteypuskála á Grundartanga.

Ekki er um að ræða aukningu á álframleiðslu, heldur verður álið unnið áfram og verðmeiri afurð en áður búin til en áður, en álstangir eru verðmætari en hleifar sem steyptir eru í núverandi steypuskála. Með nýrri framleiðslulínu sparast umtalsverð orka í steypuferlinu eða um 40 prósent auk þess sem útflutningstekjur Norðuráls aukast um yfir 4 milljarða á ári. Byggingarframkvæmdirnar eru sagðar skapa um 100 störf, en þegar við gangsetningu nýju framleiðslulínunnar verða til um 40 störf til framtíðar.


Tengdar fréttir

Norður­ál ræðst í fimm­tán milljarða fram­kvæmdir

Norðurál og Landsvirkjun hafa gert með sér samkomulag um þriggja ára framlengingu á raforkusölusamningi og mun hann taka gildi þann 1. janúar 2023. Í framhaldinu mun Norðurál fara í fimmtán milljarða króna framkvæmdir: byggingu steypuskála við álverið á Grundartanga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×