Erlent

Rússneska flaggskipið Moskva sokkið

Eiður Þór Árnason skrifar
Rússnesk yfirvöld staðfestu fyrst í gærkvöldi að Moskva hafi orðið fyrir miklum skemmdum í kjölfar eldsvoða.
Rússnesk yfirvöld staðfestu fyrst í gærkvöldi að Moskva hafi orðið fyrir miklum skemmdum í kjölfar eldsvoða. CC BY 4.0/Mil.ru

Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur staðfest að beitiskipið Moskva, flaggskip Svartahafsflotans, hafi sokkið í Svartahafi við suðurhluta Úkraínu.

Rússar og Úkraínumenn deila um aðdragandann en Rússar segja að eldur hafi kviknað um borð og tekist að flytja áhöfnina á brott án manntjóns. 

Úkraínski herinn fullyrðir aftur á móti að skipið hafi orðið fyrir tveimur Neptune-flugskeytum í gærkvöldi með fyrrnefndum afleiðingum. Talið er að Moskva hafi orðið fyrir miklum skemmdum og verið í togi á leið til Sevastopol á Krímskaga þegar það sökk. 

Í yfirlýsingu frá rússneska varnarmálaráðuneytinu segir að skipið hafi orðið óstöðugt í stormi og sokkið vegna skemmda á skipsskrokknum eftir að eldur barst í skotfærageymslu þess með tilheyrandi sprengingu.

Móralskur sigur fyrir Úkraínu

Rússneski sjóherinn á einungis tvö önnur sambærileg orustuskip í flota sínum. Moskva var smíðuð í Úkraínu og tekin í notkun á níunda áratugnum. Hún hefur verið öflugasta skip Rússa í Svartahafinu; 186 metra löng, 12.500 tonn og áhöfn hennar telur 510 manns.

Fréttaskýrendur segja tjónið mikið högg fyrir Rússa - og mikilvægan móralskan sigur fyrir Úkraínumenn. Þetta muni jafnframt líklega verða þess valdandi að önnur skip rússneska flotans þurfi að koma sér fyrir fjær landi af öryggisástæðum.

Illia Ponomarenko, blaðamaður hjá The Kyiv Independent, segir að þetta sé fyrsta flaggskipið sem Rússar missi frá því að þeir háðu stríð við Japana á árunum 1904 til 1905.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×