Viðskipti innlent

34 minnkað við sig og 60 birtast ekki á hlut­haf­alista

Eiður Þór Árnason skrifar
Framkvæmd útboðsins hefur reynst mjög umdeild. 
Framkvæmd útboðsins hefur reynst mjög umdeild.  Vísir/Vilhelm

Alls hafa 34 fjárfestar sem keyptu í nýlegu útboði ríkisins á hlutum í Íslandsbanka minnkað eignarhlut sinn að hluta og selt á hærra verði, samkvæmt upplýsingum frá Bankasýslu ríkisins sem byggja á samanburði á hluthafalista Íslandsbanka og lista yfir þá sem fengu hlut í útboðinu.

Af þeim 207 fjárfestum sem tóku þátt í útboðinu birtast 60 ekki á hluthafalista bankans. Það getur meðal annars skýrst af sölu viðkomandi aðila, því að þeir hafi fjárfest í gegnum fjármálastofnanir eða hluturinn sé í vörslu þeirra. Í slíkum tilvikum eru hlutirnir skráðir á viðkomandi banka eða eignastýringaraðila á hluthafalistanum en ekki nafn fjárfestisins.

Í tilkynningu frá Bankasýslunni segir að þar sem nokkrar ástæður geti verið fyrir því að einstaka fjárfestar birtist ekki á hluthafalista sé erfitt að fullyrða um nákvæman fjölda þeirra sem hafi selt eignarhlut sinn að fullu.

Bankasýslan bendir þó á að hlutafjáreign fjármálastofnana í Íslandsbanka hafi verið 0,3% fyrir útboð Bankasýslunnar en verið komin í 4,1% af heildar hlutafé bankans þann 11. apríl, um þremur vikum eftir útboðið. Sú aukning samsvarar um 75% af eignarhlut þeirra fjárfesta sem keyptu í útboðinu en birtast ekki á hluthafalistanum. 

Gefur þetta til kynna að nú sé búið að selja 25% af heildarhlut þessara 60 fjárfesta á hærra verði. Að sögn Bankasýslunnar keyptu þessir 60 aðilar keyptu samtals 22,3% af útboðinu sem samsvarar 5,0% af heildar hlutafé Íslandsbanka.

Nýverið var fjallað um það að stór hluti þeirra fjárfesta sem tóku þátt í útboðinu hafi þegar selt hlut sinn í bankanum. Þær upplýsingar byggðu sömuleiðis á samanburði á hluthafalista Íslandsbanka fyrir og eftir útboðið en Innherji greindi síðar frá því að þær tölur hafi verið ofáætlaðar í ljósi þess að eignir margra fjárfesta hafi ekki birst undir nafni þess félags heldur sem hluti af eign fjármálafyrirtækja.

25 aukið við hlut sinn

Fram kemur í tilkynningu frá Bankasýslunni að 25 fjárfestar hafi aukið við eignarhlut sinn í Íslandsbanka eftir að útboðinu lauk. Viðkomandi aðilar hafi keypt samtals 29,1% af útboðinu sem samsvari 6,5% af heildarhlutafé bankans. Þann 11. apríl nam eignarhlutur þessara aðila 28,8% af heildar hlutafé bankans, samkvæmt hlutaskrá.

Að lokum eru 87 fjárfestar sem tóku þátt í útboðinu enn með óbreyttan eignarhlut. Viðkomandi aðilar keyptu samtals 25,3% af útboðinu sem samsvarar 5,7% af heildar hlutafé bankans. Samtals eignarhlutur þessara aðila samkvæmt hlutaskrá 11. apríl nemur 10,1% af heildar hlutafé bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×