Umfjöllun og viðtöl: Valur – KA/Þór 29-23 | Lovísa frábær þegar Valur hirti annað sætið af KA/Þór

Hjörvar Ólafsson skrifar
Lovísa Thompson var algjörlega mögnuð í dag.
Lovísa Thompson var algjörlega mögnuð í dag. Vísir/Hulda Margrét

Valur náði að hirða annað sæti í Olísdeild kvenna í handbolta af KA/Þór með 29-23 sigri í leik liðanna í lokaumferð deildarkeppninnar í Origo-höllinni að Hlíðarenda í kvöld.

Heimakonur höfðu frumkvæðið allt frá upphafi leiksins en gestirnir urðu fyrir áfall um miðbik fyrri hálfleiks þegar lykilleikmanni liðsins, Rut Arnfjörð Jónsdóttur, var vísað af velli með rauðu spjaldi fyrir að brjóta á Auði Ester Gestsdóttur þegar hún var fremsti leikmaður í hraðaupphlaupi.

Valsliðið hafði fjögurra marka forskot í háfleik en staða var 15-11 Val í vil. Það dró enn frekar í sundur með liðunum í seinni hálfleik og Valur vann að loka sex marka sigur.

Lovísa Thompson var stórkostleg í þessum leik en hún skoraði 17 mörk í öllum regnbogans litum fyrir Val.

Matea Lonac var fjarri góðu gamni hjá KA/Þór vegna höfuðhöggs en það verður ekki við Sunnu Guðrúnu Pétursdóttur að sakast. Sunna Guðrún varði 13 skot þar af eitt vítakast. Saga Sif Gísladóttir varði hins 15 skot fyrir Val en hún varði einnig eitt víti.  

Ágúst Þór: Sterk vörn og markvarsla skilaði þessum sigri

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals.

„Ég er mjög sáttur við spilamennsku liðsins í þessum leik. Við náðum upp sterkri vörn og fengum fína markvörslu. Það skilaði okkur mörkum úr hraðaupphlaupum sem er gulls ígildi," sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, sáttur í leikslok. 

„Þó svo að Lovísa Thompson hafi skorað mest þá voru margir leikmenn að leggja í púkkinn, bæði í vörn og sókn. Þetta var góð liðsframmistöaðu og ég er bara mjög sáttur við dagsverkið," sagði Ágúst Þór enn  fremur. 

„Nú fáum við smá tíma til að undirbúa okkur fyrir úrslitakeppnina. Við eum með nokkra leikmenn sem eru að glíma við meiðsli og eymsli. Það er kærkomið að fá smá tíma til þess að tjasla þeim leikmönnum saman fyrir komandi átök," sagði þjálfarinn um framhaldið.

Andri Snær: Fannst þetta þung refsing sem Rut fékk

Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs.Vísir/Hulda Margrét

„Við byrjuðum leikinn ekki nógu vel en náðum svo fínum kafla áður en við urðum fyrir áfalli. Það riðlar auðvitað leikskipulaginu töluvert, bæði í vörn og sókn, að missa Rut Arnfjörð Jónsdóttur af velli," sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs.

„Mér fannst það full þung refsing að Rut hafi fengið rautt spjald fyrir brot sitt. Þetta var óviljaverk og ekki gróf. Þessi stóri dómur breytti miklu og ég er óánægður með þessa ákvörðun. Mig langar hins vegar að hrósa leikmönnum mínum að bregðast vel við þessu áfalli," sagði hann.

„Það þýðir hins vegar ekkert að dvelja við þetta tap. Fram undan er bara ný keppni og nýjar áskoranir sem við þurfum að einbeita okkur að. Við hefðum viljað vinna þennan leik og enda í öðru sæti en ég er stoltur af liðinu það sem af er vetri," segir norðanmaðurinn. 

Af hverju vann Valur?

Valskonur náðu upp ógnarsterkri vörn sem KA/Þór tókst ekki að finna lausn á. Þar af leiðandi fengu Valur fjölmörg auðveld mörk með skotum yfir völlinn í autt markið hjá norðankonum og hraðauphlaupum. 

Hverjar stóðu upp úr?

Lovísa Thompson lék á als oddi í þessum leik en þegar upp var staðið hafði hún skorað 17 mörk, fjögur þeirra komu úr vítaköstum. Leikmenn KA/Þórs fá líklega martraðir yfir snerpu og hraða Lovísu næstu nætur.  

Hvað gerist næst?

KA/Þór leiðir saman hesta sína við Hauka í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en Fram og Valur sem urðu í fyrsta og öðru sæti í deildarkeppninni sitja hjá í þeirri umferð.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira