Erlent

Sindri þekkti bæjar­­stjórann sem Rússar skutu: Þetta hefðu getað verið við

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Hér til vinstri sést Sindri ásamt úkraínskri konu sinni á flótta frá landinu en hægra megin er mynd sem hefur farið víða í erlendum fjölmiðlum af gröf bæjarstjórans í Motishin. 
Hér til vinstri sést Sindri ásamt úkraínskri konu sinni á flótta frá landinu en hægra megin er mynd sem hefur farið víða í erlendum fjölmiðlum af gröf bæjarstjórans í Motishin.  aðsend/ap/Efrem Lukatsky

Ís­lenskur maður sem flúði Kænu­garð segir mikla heppni að hann hafi ekki verið fluttur inn í hús sem hann var að byggja í bænum Motis­hin. Hann þekkti bæjar­stjórann þar vel sem fannst í gær látin á­samt eigin­manni sínum og syni. Þau höfðu verið skotin af Rússum.

Sindri Björns­son hefur búið í Úkraínu á­samt úkraínskri konu sinni og tveimur börnum í um þrjú ar.

Þau bjuggu í út­hverfi Kænu­garðs en voru að byggja sér hús í litlum bæ, Motis­hin, skammt frá höfuð­borginni.

Gekk fram hjá húsinu okkar daglega

Það er einn þeirra bæja sem Rússar hafa horfið frá og greindu fjöl­miðlar frá því í gær að borgar­stjórinn, Olga, hefði fundist þar látin á­samt fjöl­skyldu sinni.

„Þessi Olga heitin hún var að hjálpa okkur mikið með alla pappírs­vinnu, og ganga frá öllu og gekk fram hjá húsinu okkar dag­lega kvölds og morgna þegar hún fór í og úr vinnu. Þannig að við heilsuðum henni alla daga sem við hittum hana þarna,“ segir Sindri.

Hann kemur varla orðum að því hversu sárar fréttir síðustu daga hafa verið en þau hjónin fóru gjarnan til bæjarins Bucha og versluðu þar. Þar hefur fjöldi al­mennra borgara fundist látinn eftir her­nám Rússa.

„Þetta er í raun og veru ó­lýsan­legt. Maður trúir því bara ekki að mann­vonskan sé svona,“ segir Sindri.

Þau hjónin flúðu Kænu­garð á fyrstu dögum stríðsins og komu til Ís­lands eftir um mánaðar­langt ferða­lag. Við ræddum við Sindra á fyrstu dögum stríðsins þegar þau voru að koma sér frá Úkraínu:

Sindri segir mikla mildi að þau hafi ekki verið flutt inn í hús sitt í Motis­hin því þá hefðu þau ó­lík­lega flúið land.

Bærinn er pínu­lítill og var ekki hert­ekinn strax. Þau hefðu talið bæinn öruggan stað.

Telur að þau hefðu sjálf verið á meðal fórnarlamba

„Og lukkan okkar, segi ég, við ætluðum að vera flutt þarna í desember í þorpið. Svo varð svona hökt á fram­kvæmdum þannig við vorum ekki flutt,“ segir Sindri sem telur lík­legt að þau fjöl­skyldan væru ekki á lífi í dag ef þau hefðu flutt inn í húsið á réttum tíma.

Gröf Olgu, eiginmanns hennar og sonar. Með þeim liggur annar bæjarbúi. ap/efrem lukatsky

Myndir af gröf bæjarstjórans hafa birst á erlendum miðlum en fimm lík hafa fundist í bænum.

„Það er náttúru­lega fleira fólk en bæjar­stjórinn sem þeir tóku og fóru með út í skóg og eins víst að við hefðum verið í þeim hópi því að út­lendingar eru ekki vin­sælir hjá þeim ef við hefðum verið þarna,“ segir Sindri.

Þau hjónin búa nú á æsku­slóðum hans í Mýr­dal og bíða af sér hörmungarnar en eru stað­ráðinn í að fara aftur til Úkraínu þegar stríðinu lýkur og taka þátt í að byggja bæinn Motis­hin upp á ný.

„Þegar stríðinu lýkur verður nú ein­hver bið á að það verði búið að hreinsa. Ég get ekki farið með fjöl­skyldu í þetta eins og þetta lítur út í dag. Við stefnum á að fara til baka og taka þátt í upp­byggingu á þorpinu og reyna að koma öllu svona í horf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×