Íslenski boltinn

Benedikt lánaður í félagið sem hann sagðist aldrei ætla að spila fyrir

Sindri Sverrisson skrifar
Jón Þór Hauksson og Benedikt Warén handsala samninginn um að Benedikt leiki með ÍA í sumar.
Jón Þór Hauksson og Benedikt Warén handsala samninginn um að Benedikt leiki með ÍA í sumar. kfia.is

Benedikt Warén hefur ákveðið að endurnýja kynnin við þjálfarann Jón Þór Hauksson og leika með ÍA í Bestu deildinni í sumar, sem lánsmaður frá Breiðabliki.

Skagamenn greindu frá þessu í dag. Benedikt leikur þar með á ný fyrir Jón Þór eftir að hafa spilað undir hans stjórn hjá Vestra sem lánsmaður í Lengjudeildinni í fyrra, þar sem hann skoraði fjögur mörk í tólf leikjum.

Benedikt er tvítugur miðju- og kantmaður og hefur leikið fjóra leiki í efstu deild fyrir Breiðablik. Hann skrifaði nýverið undir samning við Blika sem gildir til loka árs 2024.

Eftir að koma Benedikts á Skagann var boðuð leið ekki langur tími þar til að búið var að benda á það á Twitter að fyrir tveimur árum hefði Benedikt fullyrt að hann myndi aldrei spila með ÍA. Það gerði hann í liðnum „Hin hliðin“ á Fótbolta.net, þar sem húmorinn er reyndar yfirleitt ekki langt undan.

Á sama stað kom fram að sætasti sigur sem Benedikt hefði þá upplifað, 18 ára gamall, hefði verið sigur gegn ÍA í framlengdum bikarúrslitaleik 2. flokks árið 2019.

Skagamenn hafa látið nokkuð til sín taka á félagaskiptamarkaðnum. Þeir höfðu áður endurheimt miðvörðinn efnilega Oliver Stefánsson frá Norrköping, fengið erlent þríeyki frá Val skipað þeim Christian Köhler, Johannes Vall og Kaj Leo i Bartalsstovu, og miðvörðinn Aron Bjarka Jósepsson frá KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×