Íslenski boltinn

Baldur Sig heim í Völsung

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Smalinn er kominn heim.
Smalinn er kominn heim. Völsungur

Hinn 36 ára Baldur Sigurðsson hefur ákveðið að söðla um og ganga í raðir Völungs, uppeldisfélag síns. Lék Baldur síðast með Völsungi árið 2004.

„Baldur, töluvert hoknari af árum, reynslu og titlum síðan síðast, og knattspyrnuráð voru sammála um að ferlinum yrði ekki hægt að ljúka án þess að ná nokkrum leikjum í grænu!“ segir í tilkynningu á Facebook-síðu Græna hersins, stuðningsmannasveit Völsungs.

„Baldur færir okkar unga hóp mikið og er meira en til í að leiðbeina strákunum okkar innan sem utan vallar. Baldur á í safni sínu tvo Íslandsmeistaratitla og fimm bikartitla auk þess sem hann vann 2.deild með Völsungi árið 2003. Hann varð einnig Íslandsmeistari innanhús með Völsungi ári áður, sælla minninga,“ segir einnig í færslunni sem lesa má hér að neðan.

Alls hefur Baldur spilað 538 KSÍ leiki á ferlinum og skorað í þeim 129 mörk. Hann lék með Fjölni í Lengjudeildinni á síðustu leiktíð en hefur einnig leikið með Keflavík, KR, Stjörnunni og FH hér á landi. Þá lék hann með Bryne í Noregi og SönderjyskE í Danmörku á sínum tíma.

Völsungur leikur í 2. deild í sumar og hefur leik á útivelli gegn Víking Ólafsvík þann 7. maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×