Erlent

Sendiherra Úkraínu hjá SÞ segir afvopnun Rússa vel á veg komna

Heimir Már Pétursson skrifar
Úkraínskur hermaður við rússneskan skriðdreka sem búið er að eyðileggja.
Úkraínskur hermaður við rússneskan skriðdreka sem búið er að eyðileggja. AP/Vadim Ghirda

Sendiherra Úkraínu hjá Sameinuðu þjóðunum segir afvopnun Rússa í Úkraínu ganga vel. Úkraínski herinn hafi skotið niður fjölda rússneskra flugvéla og eytt eða náð fjölda annarra hernaðartóla á sitt vald. Framkvæmdastjóri matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna varar við miklu matvælaskorti í öðrum hrjáðum ríkjum og svæðum vegna stríðsins.

Yfirlýst markmið Rússa með innrásinni í Úkraínu voru að afvopna úkraínska herinn, losa landið undan oki nasismans og verja íbúa landsins af rússnesku bergi brotið fyrir ofsóknum stjórnvalda í Úkraínu og jafnvel þjóðarmorði á þeim. Engu að síður hafa þeir haldið uppi stöðugum loftárásum þar sem helmingur eða stór hluti íbúanna er af rússneskum ættum eins og í Kharkiv og Mariupol.

Í gær tilkynntu Rússar að þeir ætluðu að slaka á árásum sínum á höfuðborgina Kænugarð og aðrar borgir í norðurhluta landsins og einbeita sér að Donetsk og Luhansk í Donbashéraði þar sem stríðið hefur í raun staðið yfir frá árinu 2014. Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna og fleiri hafa varað við því að taka þessi orð trúanleg.

Rúmlega tíu milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín vegna innrásar Rússa í Úkraínu og tæplega fjórar milljónir hafa flúið landið. Hér fær gömul kona aðstoð á flótta frá borginni Irpin skammt frá Kænugarði.AP/Vadim Ghirda

Þá hefur Volodymyr Zelenskyy forseti Úkraínu sagt að hvergi verðið slakað á vörnum Kænugarðs þrátt fyrir yfirlýsingar Rússa. Margt bendir til að yfirlýsingar þeirra séu yfirskyn eftir afhroð hersveita þeirra í Úkraínu og verið sé að kalla þær heim til að senda nýjar í þeirra stað.

Sergiy Kyslytsya sendiherra Úkraínu hjá Sameinuðu þjóðunum snéri markmiðum Rússa um afvopnun úkraínska hersins upp á þá sjálfa á fundi hjá Sameinuðu þjóðunum í gær. Úkraínska hernum hafi gengið vel í að afvopna Rússa frá því stríðið hófst fyrir mánuði.

Sergiy Kyslytsya sendiherra Úkraínu hjá Sameinuðu þjóðunum segir Úkraínumönum ganga vel að afvopna Rússa.AP/John Minchillo

„Ég vil upplýsa ykkur um að afvopnun Rússa sem framkvæmd er af úkraínska hernum með aðstoð allrar þjóðarinnar er langt á veg komin,“ sagði Kyslytsya.

Frá upphafi innrásarinnar hafi rússneska innrásarliðið misst 17 þúsund hermenn og rúmlega 700 brynvarin ökutæki.

„Þá hafa þeir misst tæplega 600 skriðdreka, rúmlega 300 stórskotakerfi, 127 flugvélar, 129 þyrlur, tæplega 100 eldflaugaskotpalla, 54 loftvarnakerfi og sjö skip,“ sagði sendiherrann. Hluta þessa búnaðar hafa Úkraínumenn getað tekið til eigin nota í stríðinu.

Stríðið veldur hungursneið og hörmungum víða um heim

David Beasley aðalframkvæmdastjóri matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna segir stríðið í Úkraínu valda auknum hörmungum á öðrum stöðum í heiminum.AP/Jeffrey Collins

Úkraína hefur verið kölluð brauðkarfa heimsins en allur útflutningur á korni frá landinu hefur verið stöðvaður. David Beasley aðalframkvæmdastjóri matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna segir þetta hafa komið illa niður á matvælaaðstoð við fátæk og stríðshrjáð ríki eins og Jemen. Það hafi verið erfitt að ímynda sér að ástandið eins og það var í heiminum fyrir stríðið í Úkraínu gæti versnað.

„Vegna hækkunar á verði eldsneytis, matvæla og á flutningskostnaði höfðum við þegar byrjað að minnka matarskammta til milljóna barna og fjölskyldna hér og þar íheiminum. Í Jemen til að mynda þar sem við höfðum minnkað skammtana um helming fyrir átta miljónir manna horfum við fram á að þurfa að hætta matargjöfum alveg," segir aðalframkvæmdastjóri matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna í dag.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×