Fótbolti

„Að ganga út á þjóðarleikvanginn sem fyrirliði í fyrsta skipti var einstakt“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Christian Eriksen var fyrirliði danska landsliðsins í endurkomu sinni á Parken.
Christian Eriksen var fyrirliði danska landsliðsins í endurkomu sinni á Parken. Lars Ronbog / FrontZoneSport via Getty Images

Fyrir 290 dögum fór Christian Eriksen í hjartastopp í leik Danmerkur og Finnlands á EM í fótbolta síðasta sumar. Í gær snéri hann aftur á sama völl með danska landsliðinu þegar hann bar fyrirliðabandið í 3-0 sigri gegn Serbíu.

Þrátt fyrir að leikur Danmerkur og Serbíu hafi í raun verið þýðingarlítill vináttulandsleikur var augljós gleði meðal viðstaddra fyrir leik. Christian Eriksen var að snúa aftur á sama völl og hann hné niður á fyrir tæplega tíu mánuðum og ekki minnkaði gleðin þegar leikmaðurinn skoraði þriðja mark danska liðsins á 57. mínútu.

Eriksen ræddi við fjölmiðla eftir leik og sagði að það væri einstök tilfinning að leiða liðið út á völlinn í leik sem þessum.

„Þetta er ekki lokakaflinn, heldur er þetta bara byrjunin á fótboltaferli sem heldur áfram,“ sagði Eriksen að leikslokum. „Þetta var smá pása í nokkra mánuði, en nú snýst þetta um að koma fótboltanum aftur í gang.“

„Þetta var í fyrsta skipti sem ég er fyrirliði og geng út á þennan völl. Ég hef verið fyrirliði áður, en ekki hér. Að ganga út á þjóðarleikvanginn sem fyrirliði í fyrsta skipti var einstakt.“

„Það að leiða strákana út var mjög tilfinningaþrungið og eitthvað sem ég get verið stoltur af. Þetta var yndisleg tilfinning,“ sagði Eriksen meyr að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×